Holdanaut Hér á landi eru blendingar af Galloway-, Aberdeen Anges- og Limosine-kyni. Bændur segja sárlega vanta nýtt erfðaefni í stofnana.
Holdanaut Hér á landi eru blendingar af Galloway-, Aberdeen Anges- og Limosine-kyni. Bændur segja sárlega vanta nýtt erfðaefni í stofnana. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ég furða mig á því að fá ekki að flytja inn nokkra erfðavísa á meðan flutt eru inn hundruð tonna af nautakjöti,“ segir Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi og verktaki, í Hofsstaðaseli í Skagafirði.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ég furða mig á því að fá ekki að flytja inn nokkra erfðavísa á meðan flutt eru inn hundruð tonna af nautakjöti,“ segir Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi og verktaki, í Hofsstaðaseli í Skagafirði. Hann hefur byggt upp holdanautastofn til að nýta land jarðarinnar og ræktunarland sem hann hefur aðgang að en segist vera að gefast upp á því að bíða eftir leyfi til að kynbæta úrkynjaðan stofn.

Bessi var stórtækur í sölu á heyi til hestamanna en segist að mestu hættur því. Hann hafi ákveðið að nota heyið frekar til að framleiða nautakjöt úr því. „Ég hef verið að stækka holdanautahjörðina og er kominn með liðlega 100 kýr af Galloway- og Limosine-kyni. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er varla rekstrargrundvöllur fyrir þessu, miðað við hvernig þessir stofnar eru orðnir, en treysti því að fá nýtt erfðaefni til að geta ræktað stofninn og framleitt nautakjöt fyrir íslenska neytendur,“ segir Bessi.

Bændur tapa markaði

Mikil tækifæri eru hér á landi til að framleiða nautakjöt, land og heyfóður, eins og kúabændur hafa lengi bent á. Starfið hefur strandað á því að holdanautastofnanir eru úrkynjaðir vegna skyldleikaræktunar og standa langt að baki holdanautum í nágrannalöndunum. Ekki hefur fengist leyfi hjá yfirvöldum til að flytja inn erfðaefni til að bæta stofnana. Staðan er því sú að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir sérhæfðri kjötframleiðslu og íslenskri bændur glata tækifærum á vaxandi markaði.

Fyrir forgöngu Landssambands kúabænda hefur verið umræða um mikilvægi þess að bæta rekstrarskilyrði holdanautaframleiðslunnar frá árinu 2009. Skipaðir hafa verið starfshópar og niðurstaðan hefur orðið sú að nauðsynlegt væri að flytja inn nýtt erfðaefni. Niðurstöður úr áhættumati sem gert var bentu til að litlar líkur væru á því að sjúkdómar bærust til landsins með innfluttu erfðaefni með þeim aðferðum sem rætt hefur verið um. Jafnframt var bent á aðgerðir til að draga enn frekar úr áhættunni.

Umræðan komst á nýtt stig 3. júní þegar Landssamband kúabænda sótti formlega um heimild til að flytja til landsins sæði úr holdanautum af Aberdeen Angus-kyni frá félaginu Geno Global í Noregi. Sæðið var ætlað til notkunar á sjö holdanautabúum. Sótt var um undanþágu frá lögum um bann við innflutning dýra og tekið fram að búin myndu uppfylla þau skilyrði sem ráðuneytið setur vegna notkunar á sæðinu.

Atvinnuvegaráðuneytið hafnaði innflutningnum á grundvelli umsagnar yfirdýralæknis hjá Matvælastofnun. Forsendur Mast voru þær að lítill tilgangur væri í að flytja inn sæði þar sem ekkert væri hægt að gera við þá gripi sem fæddust annað en slátra þeim á viðkomandi bæ. Til að leyfa innflutninginn þyrfti að breyta lögum. Landssamband kúabænda mótmælti raunar kröftuglega þessari túlkun yfirdýralæknis og ráðuneytis, taldi hana órökstudda og óskýra auk þess sem ekki væri tekin afstaða til mikilvægra álitaefna. Ráðherra breytti ekki um afstöðu og nú er unnið í ráðuneytinu að undirbúningi lagabreytingar sem gerir ráð fyrir að innflutningur sæðis og fósturvísa verði heimill. Kúabændur telja að ekki þurfi að leggja mikla vinnu í eina setningu í lögunum og fordæmin fyrir hendi í undanþáguákvæðum fyrir svína- og hænsnarækt.

Þurfum rétt vopn í hendur

„Ég skoðaði holdanautabú í Skotlandi í vikunni. Þeir eru að ná Aberdeen Angus-gripum í sláturstærð á 12-14 mánuðum og nota aðeins hey og gras. Við sjáum þar hvað við getum gert ef við fáum rétt vopn í hendurnar,“ segir Bessi Vésteinsson í Hofsstaðaseli. Aðstöðumunurinn er gríðarlegur því hann segist ná sínum gripum í sláturstærð á 22-24 mánuðum og telji sig þó vera með betra hey en Skotarnir.

„Ef ég fæ ekki skýr skilaboð frá stjórnvöldum á næstu vikum eða mánuðum, förum við að leita að einhverju öðru að gera. Við eigum ekki að stunda landbúnað af hugsjón einni saman. Neytendur kalla eftir þessari vöru enda þykir eftirsóknarvert að geta framleitt hana með grasi. Víða annars staðar er slík vara seld við hærra verði, ekki síst í Bandaríkjunum,“ segir Bessi.