Ingibjörg segir það vera áskorun að takast að skila eigendunum framlegð af starfseminni þegar veita þarf hótelgestum fyrsta flokks þjónustu allan sólarhringinn.
Ingibjörg segir það vera áskorun að takast að skila eigendunum framlegð af starfseminni þegar veita þarf hótelgestum fyrsta flokks þjónustu allan sólarhringinn. — Morgunblaðið/Þórður
Eitthvað hefur Ingibjörg Ólafsdóttir verið að gera rétt í vinnunni því Radisson Blu Hótel Saga hefur verið að raka til sín verðlaununum. Nú síðast fékk hótelið sem Ingibjörg stýrir viðurkenningu World Travel Awards.

Eitthvað hefur Ingibjörg Ólafsdóttir verið að gera rétt í vinnunni því Radisson Blu Hótel Saga hefur verið að raka til sín verðlaununum. Nú síðast fékk hótelið sem Ingibjörg stýrir viðurkenningu World Travel Awards.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Framlegð er stærsta áskorunin. Við veitum gestunum okkar framúrskarandi og fjölbreytta þjónustu allan sólarhringinn allt árið og það þarf mikla yfirlegu og yfirsýn til að passa að það skili sér afgangur til endurnýjunar og eigenda.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Árlega heldur Rezidor keðjan fund fyrir hótelstjórana sína og leggur mikið upp úr því að vera með fyrirlesara sem hvetja og fylla okkur andagift. Það er auðvitað misjafnt hvað maður er móttækilegur, en síðast talaði Eric Weihenmayer, blindur afreksmaður, um „Adversity Advantage“ og það var sérstaklega áhrifamikið og hörðustu jálkar létu tárin bara renna.

Hver hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég hef lært af fólki í kring um mig í gegnum tíðina, og þá annars vegar hvernig ég gjarnan vil starfa og hins vegar hvernig ég vil ekki starfa. Það eru margir sem hafa veitt mér innblástur sem nýtist mér í stafinu.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Nína Dögg Filippusdóttir er í miklu uppáhaldi og ég yrði mjög montin ef hún léki mig. Hún myndi vel geta sýnt hvað það skiptir miklu máli að taka sig ekki of alvarlega og nota húmor við erfiðar aðstæður.

Hvernig heldurðu við þekkingu þinni?

Ég les mikið og ég hlusta á fólk í kringum mig. Svo eru mjög mörg praktísk námskeið sem ég sæki á vegum Rezidor keðjunnar og þá hitti ég líka kollega mína og það er mjög nytsamlegt að fá þeirra sýn á ýmis mál.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég geng mikið og skokka stundum, mér finnst gott að synda, og ég borða tiltölulega hollan mat. En ég er alltaf að fara að gera eitthvað meira og betra.

Ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa, hvert væri draumastarfið?

Ég er í draumastarfinu mínu og ef ég þyrfti að finna mér nýtt starf yrði það líklega skylt núverandi starfi, að vinna fyrir gott fólk, með góðu fólki í góðu umhverfi.

Hin hliðin

Menntun:

Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1983. BA í dönsku og þýsku frá Háskóla Íslands 1991

Störf:

Byrjaði í gestamóttökunni á Hótel Sögu 1984.

Kennari í Grunnskólanum á Ísafirði í tvö ár.

Opnaði Hótel Ísland og stýrði í fimmtán ár

Stýrði Radisson SAS í Leeds í tvö ár, þá Holida Inn Express í tvö ár og loks Park Plaza í rúmt ár.

Verkefnastjórnun hjá Höfuðborgarstofu frá 2011.

Aftur á Hótel Sögu frá ársbyrjun 2012.

Áhugamál

Finnst óskaplega gott að vera úti og ganga, helst upp á fjöll og firnindi þar sem enginn er. Stunda hannyrðir af kappi, er afskaplega áhugasöm um steina og hirði misfallega í gríð og erg á ferðum mínum.

Fjölskylduhagir

Gift Helga Rafni Jósteinssyni, deildarstjóra í Norðlingaskóla. Þau eiga Ragnhildi sem er gift Magnúsi, Stein sem býr með Dominique og Baldur sem er enn í foreldrahúsum.