Oddfríður Bjarney Magnúsdóttir, Fríða, fæddist 20. mars 1923. Hún lést 11. júlí 2014. Útför hennar fór fram í kyrrþey.

Góð kona er gengin og þakka ber umhyggju og velvild til mín og fjölskyldu minnar í hartnær fjörutíu ár. Fríða okkar, eins og við nefndum hana jafnan, annaðist börn okkar hjóna á seinni skólagöngu minni. Fljótt kom í ljós að þar fór kona sem hægt var að treysta og þar með hvarf öll sektarkennd vegna fjarveru frá börnum. Samband Fríðu og barnanna okkar var einstakt, sérstaklega samband hennar og Sveins; hann þakkar Íju, eins og hann kallaði hana, fóstrið af alhug.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Fríðu okkar en þessari dugmiklu konu virtist eðlislægt að leggja eitthvað jákvætt til flestra hluta. Gildin voru á hreinu, sem endurspegluðust í kærleikanum og umhyggjunni fyrir fjölskyldu og vinum. Víst langaði hana til þess að læra en úrræði þeirra tíma voru fyrir hana og svo marga af hennar kynslóð að fara sem fyrst út á vinnumarkaðinn. Þess vegna var svo gaman að fylgjast með fölskvalausri gleði hennar og stolti yfir velgengni afkomenda hennar á sviði mennta og menningar.

Hver maður má vera þakklátur ef hann á heilli mannsævi nær að kynnast jafn yndislegri manneskju og Fríða okkar var. Gott er að hafa átt vináttu hennar, svo traust og holl sem hún var.

Elsku Bubbi, Fríða, Þórir og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Fríðu okkar.

Helga Sveinsdóttir.