RÚV Þröstur Helgason segir lífsstíl þjóðarinnar hafa breyst.
RÚV Þröstur Helgason segir lífsstíl þjóðarinnar hafa breyst. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ákveðið hefur verið að hætta með dagskrárliðina Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldsins á Rás 1 en dagskrárliðirnir hafa fylgt útvarpsrásinni í áratugi.

Ákveðið hefur verið að hætta með dagskrárliðina Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldsins á Rás 1 en dagskrárliðirnir hafa fylgt útvarpsrásinni í áratugi.

Í yfirlýsingu frá Þresti Helgasyni, dagskrárstjóra Rásar 1, kemur fram að breytingarnar séu liður í nýrri vetrardagskrá. „Miða breytingarnar að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar, án þess þó að gera neinar grundvallarbreytingar á hlutverki eða dagskrá rásarinnar,“ segir í yfirlýsingu Þrastar.

Stefnt er að því að fækka stuttum uppbrotum á dagskránni. Í stað þessara þriggja stuttu dagskrárliða verður efnt til nýs þáttar eftir kvöldfréttir á sunnudögum þar sem fluttar verða hugleiðingar um trú, menningu og samfélag. Um er að ræða pistlaröð þar sem prestar, guðfræðingar og annað fólk innan þjóðkirkjunnar hefur orðið ásamt fleirum sem hugleitt hafa samspil trúar, menningar og samfélags fyrr og nú. „Með þessu er stefnt að því að umrætt efni nái eyrum fleiri landsmanna en þeir dagskrárliðir sem falla burt. Hlustun á þá hefur verið afar lítil,“ segir í yfirlýsingunni.

Samhliða verður bænaefni gert aðgengilegt á nýjum vef sem fer í loftið í haust þar sem fjöldi bæna verður aðgengilegur. Leitað hefur verið til Biskupstofu um að tilnefna höfunda í nýja pistlaröð. Messur verða áfram á dagskrá Rásar 1.

vidar@mbl.is