Grétar Sveinn fæddist 14. júlí 1986. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ 2. ágúst 2014.
Foreldrar Grétars Sveins eru Þorsteinn Egilson, f. 8. apríl 1957 og Eygló Ólafsdóttir, f. 29. janúar 1957. Systur hans eru Bára Þorsteinsdóttir, f. 22. maí 1981 og Brynja Þorsteinsdóttir, f. 6. desember 1994. Dóttir Báru er Ástrós Thelma Davíðsdóttir, f. 27. júní 2006.
Grétar Sveinn ólst upp í Garðabæ og gekk í Flataskóla og síðan í Garðaskóla. Þaðan lá leiðin í Fjölbrautaskóla Garðabæjar og útskrifaðist hann stúdent vorið 2010. Grétar stundaði nám í margmiðlun í Tækniskólanum.
Grétar Sveinn glímdi við flogaveiki frá 15 ára aldri.
Útför Grétars Sveins Þorsteinssonar fer fram frá Neskirkju í dag, 14. ágúst 2014, og hefst athöfnin klukkan 15.
Sumar manneskjur er ekki hægt annað en að þykja mjög vænt um og þannig var hann Grétar Sveinn, barnabarn og bróðursonur okkar. Hin sára hlið kærleikans er sorgin og það höfum við fengið að reyna með mjög svo ótímabæru láti hans. Með sorginni hafa streymt fram minningar. Myndir sem koma fram í hugann og myndir í fjölskyldualbúmum sýna Grétar sem lítinn dreng, ungling og ungan mann. Ein sýnir brosandi lítinn snáða sem horfir stórum og opnum augum, fullum af forvitni, í myndavélina. Þannig var það alla tíð. Hann brosti við öllum, horfði í augu fólks án þess að hvika og var alltaf forvitinn um lífið og tilveruna. Hann var vinamargur og var honum eðlislægt að segja með faðmlögum og orðum hve vænt honum þótti um fólk. Í kringum hann var líka mikil gleði og alltaf stutt í glettin tilsvör.
Við fylgdumst með Grétari verða að unglingi og ungum manni. Hann lauk námi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, þar sem listrænir hæfileikar hans nutu sín vel. Á stúdentsprófi fékk hann verðlaun fyrir framúrskarandi vel unnið lokaverkefni á listabraut. Hann hafði einnig stundað nám í margmiðlun við Tækniskólann.
Í vöggugjöf fékk hann svo marga góða eiginleika og hæfileika. En lífið er óútreiknanlegt og á unglingsaldri veiktist hann af flogaveiki. Áttu þau veikindi eftir að hafa mikil áhrif á líf hans eftir það. Fyrir fjörugan og áður frískan strák var trúlega oft erfitt að sætta sig við þær takmarkanir sem sjúkdómurinn setti honum, með skerðingu á orku og getu til ýmissa þátta í daglegu lífi, námi og starfi. Stundum virtist okkur hann á vissan hátt ögra sínum aðstæðum, og var þá kannski djarfari en varkáru föðurfólkinu þótti æskilegt. Ákvarðanir um hvaða leiðir sé farsælast að feta í lífinu geta reynst flóknar. Á undanförnum mánuðum hafði Grétar verið að ákveða hvaða stefnu hann vildi taka; og vann að því að safna styrk til að byggja næstu skref á.
Síðustu daga hefur fjölskylda og vinir Grétars upplifað mikla sorg. Þrátt fyrir að flogaveikin hafi fylgt honum lengi átti enginn von á að hann færi svo fljótt og skyndilega. Ólýsanlega sárt er til þess að hugsa að fá ekki lengur að upplifa návist hans eða fylgjast með honum takast á við lífið.
Við kveðjum með ást og þökk en þetta er ekki hinsta kveðja því Grétar Sveinn mun lifa í hjarta okkar og huga alla tíð.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Elsku Grétar okkar, megi andi þinn fljúga frjáls og friður almættisins þér fylgja.
Margrét amma, Elín
og Holger, Sveinbjörn,
Þorvaldur og Aðalheiður, Guðríður.
Elsku Steini, Eygló, Bára, Brynja og amma, hugur okkar er hjá ykkur. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Margrét Sjöfn, Smári Rúnar, Hanna, Atli Már, Þórunn Helga og Sunneva.
Elsku Eygló, Þorsteinn og fjölskylda, megi algóður Guð styrkja ykkur á þessum erfiða tíma.
Þín vinkona,
Halldóra Lillý.