Vefsíðan
Stjórnendum og frumkvöðlum er oft vandi á höndum þegar þarf að úthýsa einstökum verkefnum í rekstrinum. Að finna rétta forritarann getur verið snúið, að panta góða markaðsrannsókn enn snúnara, og hvar í ósköpunum má fletta upp grafískum hönnuðum sem eru á lausu?
Vefsíðan Elance.com hefur reynst mörgum vel til að leysa þennan vanda.
Er um að ræða verslunartorg fyrir „frílans“-vinnu af ýmsu tagi. Er vefurinn m.a. vinsæll hjá þeim sem þurfa, eða vilja selja, þjónustu á sviði upplýsingatækni en einnig má finna á vefnum þýðendur, hönnuði, textasmiði, verkefnisstjóra, markaðsmenn, sölumenn, verkfræðinga, arkitekta, lögfræðinga og fjármálamenn.
Fagmenn sem geta bætt við sig verkefnum geta þar stofnað síðu til að koma sér á framfæri og kaupendur þjónustunnar geta auglýst laus verkefni, fengið tilboð og umsóknir.
Kerfið er þannig byggt upp að bæði kaupendur og seljendur veita hver öðrum stjörnugjöf. Vefsíðan heldur utan um allar greiðslur og tryggir að verktakinn fái ekki krónu nema hann skili sínu eins og um var samið.
Sum íslensk fyrirtæki hafa notað vefinn með góðum árangri, en aðrir hafa brennt sig. Þarf að gæta vandlega að því að ekkert misskiljist og velja réttu manneskjuna til verksins. Hjálpar þá bæði að sjá sýnishorn af fyrri verkum og skoða hvernig umsagnir verktakinn hefur fengið. ai@mbl.is