Gerða Kristín Hammer fæddist á Ísafirði 24. mars 1925. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 5. ágúst 2014.

Foreldrar hennar voru Elín Jónína Hammer og Sigmundur Ingvarsson. Gerða átti einn hálfbróður, Ingvar Sigmundsson.

Gerða giftist 6.6. 1946 Sigurði Ólafssyni (látinn), ættuðum frá Götu í Holtahreppi og eignaðist með honum sjö börn. 1. Elín, f. 11.3. 1947, maki Bjarni Jónsson. 2. Sigurður Óli, f. 21.6. 1948, fyrri kona hans var Ragnheiður Árný Magnúsdóttir (látin), seinni kona hans er Kristín Guðmundsdóttir. 3. Elsý, f. 16.8. 1949, fyrri maður hennar var Guðlaugur Emil Jóakimsson, sambýlismaður hennar er Þröstur Þorláksson. 4. Sigríður, f. 15.9. 1952, maki Jón Baldursson (látinn). 5. Dagbjört Sigrún, f. 15.5. 1955, maki Guðmundur Ingi Magnússon. 6. Kristín Arnfríður, f. 9.5. 1958, maki Ellert Aðalgeir Hauksson. 7. Sigvard Anton, f. 30.4. 1963, maki Eygló Alda Sigurðardóttir. Gerða átti 23 barnabörn, þar af eru þrjú látin, 46 langömmubörn og þrjú langalangömmubörn.

Gerða fluttist 18 ára gömul til Grindavíkur og fór eftir það tvö sumur sem kaupakona að Kaldárholti í Holtum og kynntist þar Sigurði. 1961 fluttu Gerða og Sigurður til Grindavíkur eftir fimmtán ára búskap í Holtunum. Heimili Gerðu og Sigurðar var svo í Suðurvör 6 í Grindavík í 24 ár eða þar til þau fluttu að Hrafnistu í Hafnarfirði 1998.

Útför Gerðu fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 14. ágúst 2014, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku amma.

Margar yndislegar minningar koma nú í huga mér þegar þú ert nú sofnuð svefninum langa. Æskuminningar á ég margar um það hvernig alltaf var hægt að koma til ykkar afa og fá eitthvað gott að borða og náttúrulega að fá þitt yndislega faðmlag. Spilamennska og söngur heima hjá ykkur afa í Grindavík. Jákvæðni, dugnaður og glaðværð er það sem mér er efst í huga. Ótrúlega gaman var að fara með þér í matsalinn, göngutúr eða á ball á Hrafnistu þar sem þú varst svo vinamörg og hress að mörgum þurfti að heilsa og spjalla við. Alltaf varstu að gera eitthvað eins og að prjóna, hekla eða mála. Fjölmenn opnunin á málverkasýningunni þinni 19. júní sl. er lýsandi fyrir hversu vinamörg þú varst. Veikindum þínum er nú lokið og þú ert kominn til afa. Elsku amma, takk fyrir allt. þín er sárt saknað.

Kærleikskveðjur,

Sigríður Gerða

Guðlaugsdóttir.

Elsku fallega amma mín. Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur. Hversu sárt ég sakna þín, því fæ ég ekki með orðum lýst.

Minningarnar eru svo ótalmargar, þær mun ég ávallt varðveita. Það sem ég mun sakna mest er söngurinn, húmorinn og hláturinn þinn.

Stuttu fyrir andlát þitt áttum við ógleymanlegar stundir sem ég mun alltaf varðveita í mínu hjarta.

Það var átakanlegt að vaka yfir þér á spítalanum, elsku amma mín. Knúsa þig og kyssa á meðan þú barðist eins og ljón. Elsku gullið mitt, að fá að halda í hönd þína í lokin var eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað og það var svo sárt að kveðja þig. Þú háðir hetjulega baráttu í þínum veikindum.

Ég elska þig af öllu hjarta, amma mín, og kveð þig með miklum söknuði.

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængjavíddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan,

hjartasláttinn, rósin mín.

Er kristalstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað.

Krjúpa niður, kyssa blómið,

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson)

Þín ömmustelpa,

Jóna Björk Bjarnadóttir Hammer

Við kveðjum Gerðu Hammer með hlýjum hug. Þau Stefán afi kynntust á Hrafnistu og var Gerða afa okkar ákaflega góður félagi.

Afi og Gerða höfðu bæði létta lund og nutu þess að syngja í kórnum og taka þátt í félagslífinu á Hrafnistu. Bæði héldu þau sýningar á Hrafnistu á handverkum sínum og Gerða var alltaf með eitthvað í höndunum, ekki eitt heldur margt. Gerða átti stóra fjölskyldu en alltaf hafði hún pláss fyrir fleiri og nutum við góðs af. Við þökkum henni af alhug fyrir allt.

Hvíl í friði,

Harpa og Sigrún.