Viðhald Unnið var við fræsun og malbikun á Suðurlandsvegi á milli Vesturlandsvegar og hringtorgs við Rauðavatn.
Viðhald Unnið var við fræsun og malbikun á Suðurlandsvegi á milli Vesturlandsvegar og hringtorgs við Rauðavatn. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Malbikunarframkvæmdir héldu áfram á höfuðborgarsvæðinu í gær, en unnið var við fræsun og malbikun á Suðurlandsvegi á milli Vesturlandsvegar og hringtorgs við Rauðavatn, skammt frá Olís.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Malbikunarframkvæmdir héldu áfram á höfuðborgarsvæðinu í gær, en unnið var við fræsun og malbikun á Suðurlandsvegi á milli Vesturlandsvegar og hringtorgs við Rauðavatn, skammt frá Olís. Í fyrradag urðu svo miklar tafir á umferð um Vesturlandsveg þegar malbikunarframkvæmdir stóðu þar yfir og mynduðust langar bílaraðir. Gátu ökumenn því fátt annað en sýnt þolinmæði vegna framkvæmdanna.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir ómögulegt að komast hjá töfum vegna malbikunarframkvæmda.

Væri töluvert dýrara á kvöldin

„Raðirnar leysast nú allar á endanum og þetta er ekki mjög langur tími sem malbikunarframkvæmdir standa yfir,“ segir hann og bætir við að menn reyni að forðast að loka akgreinum á háannatíma. Í tilkynningu sem Vegagerðin sendi frá sér vegna framkvæmdanna á Suðurlandsvegi kom m.a. fram að vinna myndi standa yfir frá klukkan 6 um morguninn til klukkan 17 síðdegis.

Spurður hvort háannatími falli ekki undir þá tímasetningu svarar G. Pétur: „Við verðum að hafa einhvern tíma til verksins og menn verða að sýna því skilning að halda verður þessum vegum við.“

Malbikunarframkvæmdir væru að sögn hans mun kostnaðarmeiri ef unnið væri á kvöldin eða á næturnar. „Við verðum líka að hugsa um útgjöldin. Það væri töluvert dýrara að vinna þetta í næturvinnu,“ segir G. Pétur og bætir við að júlímánuður hafi verið mjög erfiður veðurfarslega og því séu malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu nú tíðar. „Það berast ekki margar kvartanir til okkar. Ég held að menn hafi ágætis skilning á því að það þarf að nýta þessa þurru daga til þess að vinna verkið,“ segir hann en malbikun á að vera lokið fyrir 15. ágúst nk.

Getur tafið neyðarbíla

Kristófer Sæmundsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir miklar umferðartafir, líkt og þær sem mynduðust vegna malbikunarframkvæmda á Vesturlandsvegi í fyrradag, vel geta haft áhrif á akstur neyðarbíla. „Við getum þó sinnt verkefnum. Það tekur okkur aðeins lengri tíma en við erum ekkert alveg stopp,“ segir Kristófer og bætir við að hann sýni framkvæmdunum skilning enda hafa verkefni Vegagerðarinnar safnast upp að undanförnu.