Gunnar Friðrik Ólafsson, húsasmiður, fæddist í Reykjavík 17. febrúar 1967. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. ágúst 2014.

Foreldrar hans eru Helga Erla Gunnarsdóttir, f. 7. apríl 1947, og Ólafur Friðriksson, f. 5. mars 1945. Hann á eina systur, Guðrúnu Ólafsdóttur, f. 23. febrúar 1971.

Sambýliskona Gunnars er Guðrún Helga Skúladóttir, f. 7. maí 1963. Guðrún Helga á einn son, Skúla Kristin, f. 22. ágúst 1994, sem Gunnar gekk í föður stað. Gunnar byrjaði ungur að stunda íþróttir, knattspyrnu og varð Íslandsmeistari með ÍR í 5. flokki. Síðan stundaði hann skíði og æfði og keppti fyrir Víking. Starfaði um árabil með björgunarseitinni í Garðabæ. Fjallamennskan átti hug hans allan, hvort sem var á fjallajeppa, snjósleða eða á fjórhjóli. Honum þótti landið sitt mjög fallegt og þekkti það eins og puttana á sér. Gunnar lærði húsasmíði, stundaði síðan tækninám í Danmörku. Gunnar starfaði mest við húsbyggingar og rak ásamt föður sínum byggingafyrirtæki og liggur eftir þá fjöldinn allur af byggingum.

Útför Gunnars Friðriks fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 14. ágúst 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar Íslendingar flytja til útlanda og fara í nám þá missa þeir oft tenginguna við stórfjölskylduna sem maður á hér á Íslandi og er það nú þannig að við Íslendingar eignumst oft aðra stórfjölskyldu á erlendri grund með samlöndum okkar. Þegar við fjölskyldan fluttum til Danmerkur þá urðu Gunni, Guðrún og Skúli okkar fjölskylda sem kom í barnaafmæli, við ferðuðumst saman og trölluðum á gítar við borðstofuborðið í Mosanum um áramót.

Ég og Gunni áttum margt sameiginlegt, enda jafngamlir og báðir húsasmiðir. Ásamt því þá náðu strákarnir okkar og konur vel saman. Það var margt brallað í Danmörku og náðum við oft að espa vitleysuna upp hvor í öðrum, eins og að setja upp útvarpsstöð fyrir Íslendinga í Horsens og var svo setið og blaðrað út í loftið og haft gaman af, þó svo að enginn væri að hlusta á okkur. Gunni var glettinn og uppátækjasamur og datt aldrei út dauð stund hjá honum og að því leyti þá nýtti hann hverja einustu stund hér meðal okkar og eru margar skemmtilegar og góðar sögur af Gunna hvernig hann nýtti hvert andartak og mig langar að rifja upp eina sögu sem lýsir Gunna vel.

Við Gunni áttum úti í Danmörku góða vini sem við vorum í félagsskap með og eitthvert skiptið þá leigðum við félagarnir sumarhús niður við landamæri Þýskalands. Gunni hafði þurft að fara til Íslands, eins og hann gerði nánast í hverri viku á tímabili, og ætlaði að nýta ferðina og koma við í einu afmæli á föstudeginum. Við félagarnir í Danmörku vorum hálfleiðir yfir því að Gunni gæti ekki verið með okkur þessa helgi.

Við félagarnir rúlluðum niður að landamærum Þýskalands og áttum góða kvöldstund á föstudeginum og ákváðum svo að fara yfir til Þýskalands og kaupa aðföng fyrir laugardagskvöldið. Þegar við komum í fyrstu verslunina í Þýskalandi þá stendur Gunni í anddyrinu á búðinni og spyr hverslags slugs sé á okkur og vægast sagt þá datt af okkur andlitið að sjá hann þarna, en hann ætlaði ekki að missa af félagsskapnum.

Hann sagði okkur seinna að þetta hefði verið knappt því að hann hafði vaknað klukkutíma fyrir brottför hljóp út í bíl og pantaði farið á leiðinni út á völl, stoppaði bílinn við anddyrið á flugstöðinni og hringdi í Securitas þegar var verið losa flugvélina frá landganginum og bað þá um að fjarlægja bílinn og lyklarnir væri í honum. Þegar hann svo lenti á Kastrup þá leigði hann bíl og brunaði niður til Þýskalands og ákvað að koma við í búð og kaupa eitthvað fyrir kvöldið og þar hitti hann á okkur af hreinni tilviljun.

Þegar við fjölskyldan fluttum heim eftir nám þá hjálpaði Gunni okkur mikið, bæði þegar við byggðum húsið okkar og einnig skutu Gunni og Guðrún yfir okkur skjólshúsi á meðan. Ég gat alltaf leitað til Gunna ef mig vantaði einhverjar upplýsingar í byggingabransanum því þar þekkti hann hvern krók og kima og ófá verkefni sem hann kom að, eins og bygging barnaspítala Hringsins og fleiri merkra bygginga. Í dag hef ég misst góðan vin og eigum við Jóna eftir að sakna þín mjög mikið. Gunni minn, hvíldu í friði.

Guðmundur Hreinsson,

Jóna María Kristjónsdóttir og börn.

Við hliðið mitt ég heimanbúinn stend,

á himni ljómar dagsins gullna rönd;

sú gjöf mér væri gleðilegust send

að góður vinnudagur færi í hönd.

(Jón Helgason)

Það hlýtur að standa mikið til hjá almættinu að kalla Gunnar Ólafsson til verka á besta aldri. Hann hefur hingað til ekki verið kvaddur til neinna smámuna í þessari tilveru. Hann var reyndar búinn að þráast við um tíma og glíma við erfið veikindi, en það var nú bara hans háttur í lífinu. Almættið sigrar alltaf að lokum, líka Gunnar Ólafsson.

Gunnar var, eins og títt er um átakamenn, ekki allra, en þeir sem komust að honum áttu sannarlega hauk í horni og vin í raun. Aldrei fór það svo að hann tæki að sér verk fyrir mig, þó hann léti ekkert tækifæri ónotað til að minna mig á að byggingakraninn væri klár til flutnings norður þegar kallið kæmi.

Ég kynntist honum því betur á hans uppáhaldsstað og sannarlega heimavelli, í Glaðheimum. Þar hittumst við nokkrum sinnum sumar sem vetur og leyndi sér ekki hver var ókrýndur húsráðandi á þeim bæ.

Ég gat ekki skilið betur en orð Gunnars væru lög að Fjallabaki. Þarna naut hann sín, að vera í fjallakyrrðinni í góðra vina hópi og hrókur alls fagnaðar, sannarlega kóngur í ríki sínu.

En nú er fjallkóngurinn farinn til mikilvægari verkefna, hans skarð er mikið og verður vandfyllt. Þó alltaf komi maður í manns stað setur hver sitt yfirbragð á það er gera skal og gera þarf.

Mér finnst þetta ljóð Jónasar Hallgrímssonar eiga vel við lífshlaup Gunnars.

Hvað er skammlífi?

Skortur lífsnautnar,

svartrar svefnhettu

síruglað mók.

Oft dó áttræður

og aldrei hafði

tvítugs manns

fyrir tær stigið.

Hvað er langlífi?

Lífsnautnin frjóa,

alefling andans

og athöfn þörf.

Margoft tvítugur

meir hefur lifað

svefnugum segg,

er sjötugur hjarði.

(Jónas Hallgrímsson)

Hér er sannarlega skarð fyrir skildi og mikill missir að góðum dreng. Þó er missir hans nánustu mestur. Við Erna vottum Guðrúnu og Skúla Kristni sem og öðrum aðstandendum okkar dýpstu hluttekningu í þeirri miklu sorg og mikla missi sem þau standa frammi fyrir.

Pétur Snæbjörnsson

Enn er dauðans orfi beitt,

óðum stækkar skárinn.

Miskunn engin manni veitt,

meðan bítur ljárinn.

Í dag er borinn til grafar kær vinur og ferðafélagi sem sárt er saknað. Margar ferðirnar fórum við saman til fjalla og oft glatt á hjalla. Nú hefur Gunni farið í sína hinstu ferð.

Lét þér vel að líta í glas,

lífs á skoðun fastur.

Fannst þig best við festu og bras,

flestum erfiðastur.

Ofar fjöllum ferðu senn,

fjarri vinum öllum,

en góðleg sálin gistir enn

Glaðheima á fjöllum.

ÁGJ.

Ég sendi fjölskyldu Gunna innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Páll Rúnar Traustason (Hóla-Palli).

Góður drengur og traustur vinur er látinn, langt fyrir aldur fram.

Við kynntumst Gunna fyrst í gegnum skíðaíþróttina, en hann æfði og keppti með skíðadeild Víkings á sínum yngri árum en við með skíðadeild Ármanns. Árin liðu og þegar þeir félagar Stefán og Gunni fengu bílpróf hófst Willys-tímabilið, þar sem við flengdumst um fjöllin á túttujeppunum, yfirgáfum yfirleitt jólaboð síðla á jóladagskvöld og fórum upp til fjalla og eyddum mörgum áramótum í Landmannalaugum, já það var margt brallað á þessum árum. Gunni var stór hluti af lífi okkar og þegar við giftum okkur var hann að sjálfsögðu bílstjórinn okkar á blæjulausa Willys-jeppanum og fannst ekki leiðinlegt.

Hann var barngóður og mikill vinur barnanna okkar, enda fengu þau ávallt að koma með í allar fjallaferðir. Torfærutímabilið tók svo við og var Gunni hægri hönd Stefáns á öllum keppnum og þegar við fórum til náms til Bandaríkjanna safnaði Gunni styrkjum svo að Stefán gæti komið heim og tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í síðustu keppninni 1990.

Eftir að við komum heim úr náminu fórum við að ferðast meira saman, þá oftar á vélsleðum og í skíðaferðum. Vélsleðatúrarnir voru margir og nú seinni árin áttum við margar góðar stundir í fjallahöllinni okkar í Glaðheimum, en sú höll var Gunna mjög hugleikin undanfarin ár og bar hann höfuð og herðar yfir aðra í þeim breytingum sem þar hafa orðið.

Elsku vinur, við þökkum allar þær yndislegu stundir sem við höfum átt saman, hvíl í friði.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

Margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem)

Elsku Guðrún, Skúli, Óli, Helga og Guðrún, söknuður ykkar er mikill. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Stefán, Eyrún,

Jónas og Signý.

Góður vinur og ferðafélagi, Gunnar Ólafsson, er látinn, langt um aldur fram. Ég kynntist Gunna þegar ég var að byrja í sleðamennsku fyrir um þrjátíu árum, í gegnum frænda minn, Benedikt Valtýsson. Þeir voru báðir sannkallaðir forystumenn á fjöllum í hópi sleða- og fjórhjólamanna. Þegar verið var að skipuleggja ferðir á fjöll var Gunni í essinu sínu. Allt þrælskipulagt og allir höfðu hlutverki að gegna. Á hverju ári var farið í svokallaðan Danatúr með danska vini okkar, þar sem öllu var tjaldað til í mat og drykk. Þessar ferðir kröfðust mikils undirbúnings, þar sem við vorum bæði með aðal- og aukaáætlun ef veðrið brygðist okkur. Í þeirri vinnu kom best fram skipulagshæfni hans og útsjónarsemi sem við nutum allir góðs af og vorum þakklátir fyrir.

Þeir voru nokkrir vinirnir sem byggðu sér paradís á fjöllum, skála í Jökulheimum, sem réttilega var kallaður Glaðheimar. Fyrir nokkrum árum var ráðist í endurbætur og stækkun á skálanum undir forystu Gunna. Hann stýrði verkinu, enda hagur byggingameistari og tæknifræðingur, auk þess sem hann lagði fram ómælda vinnu. Skálinn er einn glæsilegasti fjallaskáli landsins. Gunni naut þess í ríkum mæli að vera í Glaðheimum með fjölskyldu og vinum og leið hvergi betur.

Mér er minnisstætt þegar ég lenti í því óhappi að brjóta drifskaft í sexhjóli og sá fram á að ferð í Glaðheima yrði endaslepp. Gunni, sá þúsundþjalasmiður, gerði sér lítið fyrir og reif hjólið í sundur, þá að næturlagi, en hafði gert ráðstafanir til að fá varahluti snemma morguninn eftir ásamt nýbökuðu brauðmeti úr bakaríinu á Selfossi.

Þegar við vöknuðum var viðgerðinni á hjólinu lokið og nýbakað meðlæti á borðum. Þetta er eitt af mörgum dæmum um þá hjálpsemi og óeigingirni sem einkenndi Gunna á þessum ferðalögum.

Það hafði lengi verið draumur nokkurra félaga að fara í ferð til Bandaríkjanna að aka Razor-bílum. Ferðin var farin í maí síðastliðnum. Við vorum átta í þessum hópi, sem áttum ógleymanlega daga í stórkostlegu landslagi í Utah. Það var greinilegt að Gunni gekk ekki heill til skógar í þessari ferð þó að hann hafi borið sig vel. Gunni naut ferðarinnar og hafði mörg orð um það að við yrðum að fara svona ferð á hverju ári. Því miður varð þetta hans hinsta ferðalag.

Ég samhryggist innilega Guðrúnu, Skúla og foreldrum Gunna, sem eiga öll um sárt að binda, og kveð góðan dreng og þakka honum vegferðina.

Egill Ágústsson.