Fengur Bassasöngvarinn Kristinn Sigmundsson kemur fram sem konungurinn Filippus í verkinu <strong> Don Carlo</strong> sem Íslenska óperan setur upp í haust.
Fengur Bassasöngvarinn Kristinn Sigmundsson kemur fram sem konungurinn Filippus í verkinu Don Carlo sem Íslenska óperan setur upp í haust. — Morgunblaðið/Kristinn
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „ Don Carlo eftir Verdi, stóra sýningin okkar á þessu starfsári, verður frumsýnd um miðjan október.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Don Carlo eftir Verdi, stóra sýningin okkar á þessu starfsári, verður frumsýnd um miðjan október. Verkið hefur aldrei verið sviðsett á Íslandi áður og því eru þetta ákveðin tímamót,“ segir Stefán Baldursson, óperustjóri Íslensku óperunnar, um komandi starfsár.

„Þetta er stór ópera, mikið átakaverk um ástir, hefndir og stjórnmál. Svo er það náttúrlega stórfrétt að Kristinn Sigmundsson fer með hlutverk Filippusar konungs en hann hefur ekki sungið í óperu á Íslandi í tólf ár. Kristinn hefur verið á mikilli siglingu erlendis að undanförnu og syngur í öllum helstu óperuhúsum heims þessi árin. Það er því voðalega gaman að hann geti gefið sér tíma til að koma hingað og syngja í haust,“ segir hann.

Hæfileikar í öllum hornum

„Þetta eru fimm eða sex hlutverk sem eru verulega stór og flottir söngvara í þeim öllum. Í hlutverki sjálfs Dons Carlo verður Jóhann Friðgeir Valdimarsson, okkar helsti dramatíski tenór. Sagan gerist á Spáni á sextándu öld og drottninguna, Elísabetu, syngur Helga Rós Indriðadóttir. Ástardramað í verkinu snýst um að Don Carlo og Elísabet eru kærustupar þegar kóngurinn, pabbi Don Carlo, ákveður að giftast henni,“ segir Stefán um sýninguna.

„Helga hefur ekki sungið hér í óperu í þónokkur ár. Hún var mjög lengi erlendis og var meðal annars fastráðin í Þýskalandi í mörg ár. Það er því um ákveðna endurkomu að ræða. Það er önnur stór kvenrulla í verkinu en það er kona við hirðina að nafni Eboli. Hanna Dóra Sturludóttir syngur það hlutverk. Hún hefur einnig gert það mjög gott erlendis, hún sló auk þess í gen í Carmen í fyrra. Fimmta stóra hlutverkið fellur í skaut nýliða að nafni Oddur Arnþór Jónsson. Hann var að klára meistaranám í Salzburg. Hann hefur staðið sig einkar vel þar auk þess sem hann hefur tekið þátt í ýmsum söngvarakeppnum með góðum árangri. Það er því margt spennandi við þessa hlutverkaskipan og þessa söngvara. Þess ber einnig að nefna að bassinn Guðjón Ólafsson, sem hefur ekki sungið hér í áratug, hann er að koma aftur og lætur í sér heyra,“ segir Stefán en þess má geta að þrjátíu og sex manna kór tekur þátt í sýningunni. Leikstjóri hennar er Þórhildur Þorleifsdóttir, Guðmundur Óli Gunnarsson sér um hljómsveitarstjórnun, Páll Ragnarsson sér um ljósin og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sér bæði um búninga og leikmynd.

Viðburður í vetur

„Það þarf mjög sterka söngvara í verkið, það er með umfangsmeiri óperum. Sagan gerist við konungshirðina á Spáni og það eru miklar hópsenur í þessu, stundum er alveg rosalega mikið lagt í sýninguna. Við höfum hinsvegar ekki fjármagn til að gera risastóra skrautsýningu, við ætlum bara að láta innihaldið og efnið skipta mestu máli en auðvitað á glæsilegan máta,“ segir Stefán.

„Vegna fjölda áskorana og hve vel verkinu Ragnheiði gekk í vor, það sló meðal annars aðsóknarmet hjá okkur, þá ætlum við að gefa fólki kost á að sjá það um jólin. Það verða tvær til þrjár sýningar á milli jóla og nýárs og um áramótin,“ segir hann um veturinn. Þess má geta að miðasalan fer í gang um miðjan nóvember en miðasala á Don Carlo byrjar næstkomandi mánudag á midi.is og harpa.is.

„Við verðum síðan aðilar að sýningu sem sýnd verður í nóvember. Það er tæplega klukkutíma útfærsla af Töfraflautunni eftir Mozart sem ætluð er börnum. Hún verður sýnd í Norðurljósum í Hörpu og þar er um samstarf Íslensku óperunnar, Hörpu og Töfrahurðarinnar að ræða,“ segir hann en leggur þó meiri áherslu á Don Carlo .

„Við erum mjög spennt að fara út í þetta verkefni og ekki síst að fá að njóta krafta þessa stórkostlega söngvara sem Kristinn er. Hann er óumdeilanlega okkar fremsti óperusöngvari þessa stundina,“ segir Stefán að lokum.