Stöðutáknið
Það eru ekki bara karlar sem þykir gaman að eignast stöðutákn sem samræmast árangri þeirra í lífi og starfi. Konur sem hafa klifrað upp metorðastigann mega líka spreða í eitthvað dýrt, glansandi og fínt, og njóta ávaxta erfiðsins.
Hér er kominn varalitur sem fellur að hlutverki stöðutáknsins. Ef nýi Le Rouge-varaliturinn frá Givenchy er tekinn upp úr töskunni á næsta stjórnarfundi verður alveg örugglega eftir því tekið.
Hér er nefnilega enginn venjulegur varalitur á ferð. Liturinn kemur í hólki sem klæddur er ekta krókódíla-leðri. Verða aðeins framleidd 3.000 eintök, seld í snotrum gjafaöskjum, og fara á sölu í verslunum Barneys í október.
Fæst varaliturinn í litunum Le Rouge 306 og Carmin Escarpin og kostar heila 300 dali, nærri tífalt meira en venjulegur varalitur frá Givenchy. Er „venjulega“ útgáfan með lambsleðri utan um varalitarhólkinn. ai@mbl.is