HS Orka hóf gerðardómsferli fyrir einum mánuði til að losna undan samningum um sölu á orku við Norðurál sem gerðir voru árið 2007 vegna áforma um að reisa álver í Helguvík. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri orkufyrirtækisins sem birt var í gær. Fram kemur í hálfsársuppgjöri Century Aluminium, móðurfélags Norðuáls, að HS Orka telji að skilyrði samningsins hafi ekki verið uppfyllt. Norðurál segir að kröfurnar séu tilhæfulausar og hyggst grípa til varna.
Heimildir herma að stjórnendum HS Orku þyki raforkuverðið í samningum of lágt en það sé tengt þróun álverðs sem hafi lækkað mikið frá því að samningurinn var undirritaður.
„Þetta kemur okkur á óvart,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls. „Málið er sama eðlis og þegar hefur verið fjallað um í gerðardómi. Í stað þess að vinda sér í að uppfylla sínar samningsskuldbindingar ákveða þeir að fara þessa leið,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. Ásgeir Magnússon, forstjóri HS Orku, sagðist ekki mega tjá sig um málið við fjölmiðla.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins er krafan af sama meiði og þegar fyrirtækin tókust á fyrir gerðardómi í Svíþjóð í eitt og hálft ár á árunum 2010 og 2011. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma staðfestir úrskurðurinn að orkusölusamningur HS Orku og Norðuráls vegna álvers í Helguvík sé í fullu gildi og að HS Orku beri að afhenda umsamda orku. Úrskurðurinn feli hins vegar ekki í sér að HS Orka sé skuldbundin til að virkja orku og afhenda hana í áratugi án þess að hafa nokkuð út úr því. Ýmsir fyrirvarar voru í orkusölusamningum fyrirtækjanna, meðal annars um arðsemi, fjármögnun og nauðsynleg leyfi, sem ekki hafa verið uppfyllt.
270 þúsund tonna álver
Norðurál vinnur að undirbúningi 270 þúsund tonna álvers í Helguvík, í þremur 90 þúsund tonna áföngum. Það liggur í augum uppi að þetta gerðardómsferli – sem síðast tók eitt og hálft ár – mun að minnsta kosti tefja þá vinnu. Í þessari umferð er lögð áhersla á að tryggja orku í fyrstu tvo áfangana en sjá þó út yfir verkefnið í heild. Fjórði áfanginn með enn frekari stækkun er falinn lengra inni í framtíðinni og hlýtur að ráðast af orkuöflunarmöguleikum.Fyrir hvern áfanga álvers þarf liðlega 150 megavatta afl í raforku. Samningar gerðu ráð fyrir að 100 MW í fyrsta áfangann kæmu frá HS Orku og 50 MW frá Orkuveitu Reykjavíkur. OR hefur þegar byggt Sleggjuna við Hellisheiðarvirkjun og er tilbúin að afhenda orkuna til Helguvíkur þegar Norðurál óskar.