Gabonbúinn Pierre Aubemeyang fagnaði marki sínu fyrir Borussia Dortmund gegn Bayern München í þýska Ofurbikarnum í gær á undarlegan hátt, þegar hann setti upp grímu eins og Köngulóarmaðurinn. Aubemeyang skoraði síðara mark Dortmund í 2:0-sigri á Bayern. Henrikh Mkhitaryan skoraði hitt mark Dortmund í leiknum.
Franck Ribery , leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern München, tilkynnti í gær að hann mundi ekki leika fleiri leiki með franska landsliðinu í knattspyrnu. Ribery sem er 31 árs á að baki 80 landsleiki.
Arnar Davíð Jónsson komst í gær áfram á heimsmeistaramóti ungmenna í keilu í Hong Kong í 24 manna úrslit eða Masters eins og það er kallað. Arnar endaði í 22. sæti með 207 stig í meðaltal og keppti svo í úrslitum klukkan 3 í nótt að íslenskum tíma.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland, fékk í gær sænska framherjinn David Moberg Karlsson til liðs við sig. Þessi tvítugi leikmaður sem var á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Sunderland gerði fjögurra ára samning við Nordsjælland.
Damon Johnson samdi í gær við Keflavík um að spila með félaginu í Dominos-deild karla í körfubolta í vetur. Johnson sem er orðinn fertugur er með íslenskt ríkisfang, og lék með Keflavík um skeið áður en hann réri á önnur mið í Evrópu. Þá hefur Keflavík einnig fengið bandaríska leikmanninn Titus Rubles til sín.
Vincent Kompany , fyrirliði Englandsmeistara Manchester City, skrifaði í gær undir nýjan fimm ára samning við félagið. Kompany, sem er 28 ára er þar með bundinn Manchester-liðinu til ársins 2019. Áður höfðu Aleksandar Kolarov , Samir Nasri og David Silva gert nýja samninga við Manchester City sem ætlar sér stóra hluti á komandi tímabili.