Ég setti mér það markmið að reyna að fara reglulega út að hlaupa í sumar. Það hefur gengið svona upp og ofan, en það er allavega komið á prent núna svo ég get illa svikist undan fram á haustið. Sjáum til með það.
Ég setti mér það markmið að reyna að fara reglulega út að hlaupa í sumar. Það hefur gengið svona upp og ofan, en það er allavega komið á prent núna svo ég get illa svikist undan fram á haustið. Sjáum til með það.

En mín hlaupaafrek áttu nú ekki að vera til umræðu hér, enda takmarkast þau við nokkra verðlaunapeninga í 1. maí hlaupinu sem krakki – fyrir að vera með. Ómældur heiður, vissulega. En ég hef gaman af því að fylgjast með hlaupum og tækninni sem þessu sporti fylgir, þetta er ekki bara að rjúka af stað.

Ég held einmitt að það sé einna réttast að lýsa því sem stolti að sjá Anítu Hinriksdóttur komast í undanúrslit í 800 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Zürich í gær. Ég efast líka um að allir geri sér grein fyrir því hvað þetta er stór áfangi.

Aníta er að keppa á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti fullorðinna utanhúss og hún stendur alveg í þeim sem eldri og reyndari eru. Hún er löngu komin yfir það að vera bara efnileg. Þó væntingarnar séu hóflegar fyrir hlaupið í dag eins og Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari hennar talaði um hér á forsíðunni, þá er alltaf möguleiki. Hvernig sem fer er árangurinn eftirtektarverður.

Ég man hvað ég var hneykslaður yfir besservisserum á Twitter eftir úrslitahlaupið hennar á HM ungmenna í Eugene fyrr í sumar, þegar hún missti hausinn og hætti keppni. Það sem menn gátu látið hafa eftir sér fannst mér í besta falli merkilegt, eða ómerkilegt raunar.

Hvar eru þessir apakettir á Twitter núna? Ekki heyrði ég bofs í gær í það minnsta. Skrítið hvað er erfitt að hrósa líka.