— Morgunblaðið/Golli
Stofnandi vogunarsjóðsins Boreas Capital var fyrr í sumar dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 21 milljón króna í sekt vegna skattsvika.

Hæstiréttur dæmdi nýlega sjóðsstjóra og stofnanda vogunarsjóðsins Boreas Capital, Ragnar Þórisson, í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 21 milljón króna í sekt vegna skattsvika.

Ragnar var ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur að fjárhæð rúmar 120 milljónir króna sem var hagnaður hans af uppgjöri tveggja framvirkra skiptasamninga, sem gerðir voru árið 2006.

Talið var að hagnaður Ragnars af umræddum afleiðusamningum hefði falið í sér skattskyldar fjármagnstekjur og að ekki hefði staðið heimild til að draga frá þeim tap af öðrum sams konar samningum eða beinan kostnað við öflun teknanna. Ragnar gerði alls átján framvirka samninga við MP banka þetta ár. Hagnaður varð af tveimur samningum, sem ákæra málsins tók til, en tap af hinum samningunum nam samanlagt hærri fjárhæð en svaraði til hagnaðarins. Vegna mistaka bankans voru fjármagnstekjur af samningunum tveimur ekki taldar fram, rétt eins og forsvarsmenn bankans staðfestu fyrir dómi.

Á árinu 2011 úrskurðaði ríkisskattstjóri að stofn fjármagnstekjuskatts Ragnars vegna ársins ætti að hækka um rúmar 120 milljónir króna og að við hann ætti jafnframt að bætast 25% álag að fjárhæð rúmar þrjátíu milljónir króna. Ragnar skaut úrskurðinum ekki til yfirskattanefndar, heldur greiddi skattinn af endurákveðnum stofni með álagi.

Loks var gefin út ákæra á hendur honum haustið 2012.

Þegar verið gerð refsing

Ragnar reisti kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi fyrst í stað á því að sér hefði þegar verið gerð refsing fyrir það brot sem honum var gefið að sök – með 25% álagi. Af þeirri ástæðu færi saksóknin í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fram kemur að enginn skuli sæta lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að í dómaframkvæmd dómstólsins hafi ekki verið talið að það færi í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð „þótt stjórnvöld hafi áður gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni sé síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sömu málsatvika“.

Í annan stað reisti hann frávísunarkröfu sína á því að skattrannsóknarstjóri og sérstakur saksóknari hefðu, á þeim tíma sem málið var rekið í héraði, brotið gegn hlutlægnisskyldu sinni með því að mæla gegn því á opinberum vettvangi og í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að gerðar yrðu lagabreytingar sem hefðu haft áhrif á refsinæmi verknaðarins sem ákærða er gefin að sök. Taldi ákærði að með þessu hefði verið brotið gegn rétti hans til að njóta réttlátrar málsmeðferðar.

Hæstaréttur bendir aftur á móti á að það geti ekki varðað frávísun málsins þótt skattrannsóknarstjóri eða sérstakur saksóknari hafi tjáð sig með almennum hætti um fyrirhugaða lagasetningu á þessu sviði skattaréttar, „enda var slík umfjöllun saksókninni óviðkomandi“.

Lagabreytingarnar fólu meðal annars í sér að tekjur af afleiðusamningum yrðu skattlagðar sem söluhagnaður í stað vaxtatekna. Af því leiðir að draga má frá heildarhagnaði það tap sem kann að hafa orðið vegna sams konar eigna á sama ári, áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna er ákveðinn.

Eins segir í dómnum að það leysi ákærða ekki undan refsiábyrgð þótt MP banki hafi vanrækt skyldu sína til að standa skil á skattinum. Ákærði hafi skýrt rangt frá fjármagnstekjum sínum og það verði að virða honum til „stórkostlegs hirðuleysis“.