Rannsóknarnefnd Páll Hreinsson hæstaréttardómari, dr. Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur og kennari við Yale-háskóla, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, unnu skýrslu um fall bankanna.
Rannsóknarnefnd Páll Hreinsson hæstaréttardómari, dr. Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur og kennari við Yale-háskóla, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, unnu skýrslu um fall bankanna. — Morgunblaðið/Kristinn
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Kostnaður við störf rannsóknarnefndar um fall íslensku bankanna var 340 milljónir króna en ekki rúmar 450 milljónir króna eins og fram hefur komið.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Kostnaður við störf rannsóknarnefndar um fall íslensku bankanna var 340 milljónir króna en ekki rúmar 450 milljónir króna eins og fram hefur komið. Um 110 milljónum króna var varið í prentkostnað og að skrásetja gögnin í gagnagrunn. Sá kostnaður var hins vegar bókfærður sem kostnaður við störf nefndarinnar.

Þetta kemur fram í bréfi sem nefndarmennirnir sem unnu skýrslu um fall bankanna, Páll Hreinsson, Tryggvi Gunnarsson og Sigríður Benediktsdóttir, sendu forsætisnefnd Alþingis í fyrradag.

Þar kemur fram að ástæða bréfasendingarinnar sé sú að störf rannsóknarnefndarinnar hafi ekki notið sannmælis þegar fjallað hefur verið um kostnað við skýrslur rannsóknarnefnda um bankahrunið, Íbúðalánasjóð og sparisjóðina.

„Kostnaðuinn við prentunina og kostnaðurinn við að færa þessi gögn inn í þjóðskjalasafnið var 110 milljónir og þannig varð kostnaðurinn 450 milljónir,“ segir Páll Hreinsson.

Í bréfinu segir að strax árið 2008 hafi verið ákveðin 30 milljóna króna fjárveiting til verksins og svo 150 milljóna króna fyrir árið 2009. Voru þeir fjármunir ákveðnir án þess að nefndin hefði nokkuð um það að segja. Eftir að í ljós kom að þeir fjármunir myndu ekki duga samþykkti yfirstjórn Alþingis svo aukafjárveitingu og að endingu nam kostnaður við vinnslu skýrslunnar 210 milljónir á árinu. Var kostnaðurinn í lok árs 2009 því kominn í 240 milljónir. Undir lok árs gerði nefndin svo kostnaðaráætlun upp á 100 milljónir króna fyrir árið 2010 og var hún samþykkt af Alþingi. Sú áætlun stóðst og skýrslan var birt í apríl árið 2010. Í framhaldinu var svo aukakostnaður samþykktur af yfirstjórn Alþingis og fóru um 110 milljónir til kynningar á efni skýrslunnar.

Prentkostnaður var um 96 milljónir en 20 milljónir fengust í tekjur af sölu á skýrslunni. Um 6,5 milljónir fóru í að þýða skýrsluna en kostnaður við frágang Þjóðskjalasafns á gögnum og gagnagrunnum var tæplega 27 milljónir króna. „Það eru vandaðir stjórnarhættir að taka út störf rannsóknarnefnda og læra af reynslunni. Forsenda þess að það sé hægt er að mat á störfum nefndanna sé byggt á staðreyndum en ekki fleipri,“ segir í bréfinu.