[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ríki Evrópu munu þurfa að auka framlög til varnarmála verulega á næstu árum vegna herskárrar utanríkisstefnu Rússa. Staðan í öryggis- og varnarmálum hefur gjörbreyst.

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ríki Evrópu munu þurfa að auka framlög til varnarmála verulega á næstu árum vegna herskárrar utanríkisstefnu Rússa. Staðan í öryggis- og varnarmálum hefur gjörbreyst.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, og fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, lagði þunga áherslu á þetta í samtali við Morgunblaðið í Reykjavík í gær.

Vikið er að tilefni heimsóknarinnar í grein hér fyrir neðan.

Deila Úkraínu og Rússlands var aðalefni samtalsins en fyrrnefnda landið er ekki í NATO. Bandalagið á hins vegar í margháttuðu samstarfi við Úkraínu. Hefur NATO meðal annars ákveðið að aðstoða Úkraínu hvað varðar umbætur og nútímavæðingu á herafla landsins. NATO sleit samstarfi við Rússland í apríl sl.

Þýddi harðari þvinganir

– Rætt hefur verið um mögulega innrás Rússlands í Úkraínu. Hver yrðu viðbrögð Atlantshafsbandalagsins við slíkri innrás?

„Það er á ábyrgð alls alþjóðasamfélagsins [að bregðast við]. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef Rússar beita frekari inngripum í Úkraínu þurfi alþjóðasamfélagið að bregðast við af festu, þar með talið með djúptækari, víðtækari og harðari efnahagsþvingunum [gegn Rússum] en til þessa. NATO einblínir á sameiginlegar varnir bandamanna okkar og við höfum ákveðið að efla samstarf okkar við Úkraínu.“

– Gæti innrás Rússa í Úkraínu kallað á hernaðarleg viðbrögð?

„Við erum ekki að íhuga hernaðarlega valkosti.“

– Segja má að friður hafi ríkt í Evrópu frá lokum kalda stríðsins, ef frá eru talin átökin á Balkanskaga. Erum við að þínu mati að sigla inn í nýtt skeið sem kalla mun á stefnubreytingu af hálfu NATO?

Hefur langvarandi afleiðingar

„Ég tel að hegðun Rússa muni hafa langvarandi afleiðingar. Staða öryggismála í Evrópu hefur tekið dramatískum breytingum. Síðan kalda stríðinu lauk hefur NATO reynt að nálgast Rússland með uppbyggilegu samstarfi. Við höfum álitið Rússland bandamann. Nú höfum við komist að því að Rússar líta á okkur sem andstæðing. Það er augljóst að við þurfum að bregðast við því. Ég tel ekki að um sé að ræða skammvinnt tímabil. Ég trúi því að það sem við höfum séð [til Rússa] sé til vitnis um breytingar sem muni vara í nokkurn tíma.“

– Það eru fjölmennir minnihlutahópar af rússnesku bergi brotnir í Eystrasaltslöndunum. Hefurðu áhyggjur af því, fyrir hönd NATO, að Rússar sjái sér nú leik á borði að stækka áhrifasvæði sitt, eins og þeir hafa gert í Úkraínu með aðgerðum sínum undanfarið?

„Í fyrsta lagi tel ég ekki að nú sé fyrir hendi yfirvofandi ógn gegn Eystrasaltsríkjunum, vegna þess að þau eru bandalagsþjóðir NATO. Rússar vita að ef þeir fara yfir strikið muni það hafa afleiðingar, enda myndum við grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda Eystrasaltsríkin og aðrar bandalagsþjóðir. Að því sögðu er það áhyggjuefni að Rússar skuli hafa lýst því yfir að þeir muni halda í rétt sinn til íhlutunar í önnur ríki, ef þeir telja hagsmunum rússneskumælandi samfélaga ógnað, eða ekki nóg tillit tekið til þessara hagsmuna. Augljóst er að það hefur valdið miklum áhyggjum, einkum í Eistlandi og Lettlandi, þar sem eru fjölmenn rússneskumælandi samfélög.“

Íslendinga að ákveða

– Með hvaða hætti mun þessi þróun mála hafa áhrif á Ísland?

„Ég held að það sé Íslendinga að ákveða. Nú höfum við uppi viðbúnaðarstig á Íslandi sem miðast við friðartíma, þar sem bandalagsþjóðir skiptast á að sinna loftrýmisgæslu. Það er ekki stöðug viðvera, heldur gæsla sem fer fram öðru hverju. Jafnframt fór hér fram [þjálfunarverkefnið] Iceland Air Meet 2014, með þátttöku Svía og Finna. Hvort útvíkka eigi þessar aðgerðir held ég að sé að miklu leyti Íslendinga að ákveða. Almennt má segja að eftir því sem hagkerfið taki við sér geti Ísland einnig lagt sitt af mörkum með fjárframlögum. Þótt Ísland geti ekki lagt fram hergögn eða herafla gæti landið lagt sitt af mörkum með fjárframlögum. Þetta eru atriði sem verða rædd á leiðtogafundinum í Wales [í september].“

Verður pólitísk áskorun

– Mörg ríki í Evrópu glíma við afleiðingar evrukreppunnar og horfa fram á skeið lítils hagvaxtar. Hversu mikil áskorun verður það fyrir stjórnmálaforystuna í Evrópu að sannfæra kjósendur um að þörf sé fyrir aukin útgjöld til hermála?

„Það verður áskorun. Við verðum að horfast í augu við það. Frá lokum kalda stríðsins hafa Evrópubúar vanist tiltölulega stöðugu og friðsælu umhverfi. Þeir hafa jafnframt notið góðs af því sem nefnt hefur verið ágóði friðarins [vegna minni útgjalda til hermála eftir lok kalda stríðsins]. Nú horfumst við í augu við gjörbreytta stöðu. Aðgerðir Rússa í Úkraínu hafa vakið okkur til vitundar. Þær minna okkur á að við getum ekki lengur tekið öryggi okkar sem gefnu. Því er nú í raun ógnað ... Á síðustu fimm árum hafa bandalagsþjóðir NATO að meðaltali skorið niður framlög til varnarmála um 20%. Sumar þjóðir um allt að 40%. Á sama tímabili hafa Rússar aukið útgjöld til þessa málaflokks um 50%. Augljóst er að sú þróun gengur ekki upp til lengdar,“ segir Rasmussen.

Átti fundi með tveimur ráðherrum

Anders Fogh Rasmussen kom hingað í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og funduðu þeir ásamt aðstoðarmönnum og ráðgjöfum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Að því loknu hélt Rasmussen til fundar við Gunnar Braga Sveinsson í utanríkisráðuneytinu. Á fundunum voru rædd helstu málefni og áherslur vegna undirbúnings leiðtogafundar NATO í Wales í september. Hvorki náðist í Gunnar Braga né Sigmund Davíð.