„Það er alltaf dagurinn í dag sem er bestur,“ segir Steinunn Guðbjörnsdóttir, hestakona af Álftanesi. Hún hélt upp á fimmtugsafmæli sitt með því að safna saman hópi til að fara í hestaferð á ská yfir Ísland, frá Fonti á Langanesi og út á Reykjanes. Átta eru í hópnum, reiðmenn og aðstoðarmenn, og yfir þrjátíu hross. Ferðinni lýkur í kvöld á Reykjanestá. Dagleiðirnar hafa verið frá 26 og upp í 60 km. Erfiðast var hálendið enda dagleiðir langar og götur grýttar. Veðrið hefur hins vegar leikið við hópinn og ferðin gengið vel. Náttúra Íslands og félagsskapurinn var ferðafélögunum efst í huga þegar áð var í Herdísarvík í Selvogi í gær, í næstsíðasta áfanga leiðarinnar. Í dag verður riðið frá Krísuvík á áfangastað. 12