Hörður Ægisson hordur@mbl.is Það er tekið að fjara mjög undan hinum veikburða efnahagsbata á evrusvæðinu. Kastljós fjárfesta beinist að þessu sinni einkum að stærstu hagkerfum myntsvæðisins. Ítalska hagkerfið siglir á ný inn í samdráttarskeið.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Það er tekið að fjara mjög undan hinum veikburða efnahagsbata á evrusvæðinu. Kastljós fjárfesta beinist að þessu sinni einkum að stærstu hagkerfum myntsvæðisins. Ítalska hagkerfið siglir á ný inn í samdráttarskeið. Útlitið er ekki mikið betra í Frakklandi. Og hagtölur sem berast frá Þýskalandi gefa til kynna að hagvöxtur þar verði undir væntingum. Þessi þróun þarf ekki að koma á óvart.

Allar aðgerðir Evrópska seðlabankans á undanförnum árum til að takast á við efnahagsvanda evrusvæðisins – hagvaxtarkreppu, ríkisskuldakreppu og bankakreppu – hafa átt það sameiginlegt að hafa verið of litlar og komið of seint. Sú ákvörðun að fara með vexti bankans niður fyrir núll fyrr á árinu hefur ekki skilað þeim ávinningi sem vonast var eftir. Bankar halda enn að sér höndum og kjósa fremur að styrkja eiginfjárstöðu sína í stað þess að auka útlán til hagkerfisins.

Verðhjöðnun – lítill hagvöxtur og verðbólga ásamt miklu atvinnuleysi – er raunverulegt og vaxandi vandamál fyrir mörg ríki evrusvæðisins. Fram til þessa hafa opinberir stefnusmiðir reynt að gera lítið úr þeim vanda og kosið að setja kíkinn fyrir blinda augað. Þótt sá blekkingaleikur kunni að taka enda er sennilegt að djúpstæður pólitískur ágreiningur og ólíkir þjóðarhagsmunir muni enn sem fyrr aftra því að gripið verði til þeirra úrræða sem þarf til að binda enda á kreppuna endalausu á evrusvæðinu.