Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Unnið er að gerð frumvarps í atvinnuvegaráðuneytinu um breytingar á lögum um innflutning dýra til að heimila innflutning á erfðaefni fyrir holdanautagripi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Unnið er að gerð frumvarps í atvinnuvegaráðuneytinu um breytingar á lögum um innflutning dýra til að heimila innflutning á erfðaefni fyrir holdanautagripi. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu er reiknað með að frumvarpið verði lagt fram þegar þing kemur saman í haust.

Ráðuneytið hafnaði umsókn Landssambands kúabænda um undanþágu frá lögum um bann við innflutningi dýra til að flytja inn sæði og nota á sjö holdanautabúum. Grundvallast það á afstöðu yfirdýralæknis en forsvarsmenn kúabænda véfengja forsendur embættismannsins. Krafðist LK þess að málið yrði endurskoðað í ljósi athugasemda þeirra en við því hefur ráðuneytið ekki brugðist. „Þetta eru gríðarleg vonbrigði enda tekur málið óheyrilega langan tíma. Við töldum okkur hafa réttmætar væntingar um að ráðherra veitti okkur undanþágu til innflutningsins,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í atvinnuvegaráðuneytinu, viðurkennir að málið hafi tekið langan tíma en menn hafi ekki viljað taka ónauðsynlega áhættu við ákvörðun um málefnið. 18

Nautakjötsframleiðsla
» Ræktun holdakynja komin að fótum fram. Bændur kalla eftir innflutningi erfðaefnis.
» Rætt hefur verið um innflutning í mörg ár en engin niðurstaða er komin í málið.