Atorkusöm „Mér féllust hreinlega hendur þegar ég sá þetta á blaði og áttaði mig á umfanginu. Ég hafði alls ekki áttað mig á því að ég hefði spilað alla þessa tónleika og skipulagt þetta allt saman,“ segir Rut Ingólfsdóttir.
Atorkusöm „Mér féllust hreinlega hendur þegar ég sá þetta á blaði og áttaði mig á umfanginu. Ég hafði alls ekki áttað mig á því að ég hefði spilað alla þessa tónleika og skipulagt þetta allt saman,“ segir Rut Ingólfsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Endurskin frá 1974 er yfirskrift afmælisfagnaðar Kammersveitar Reykjavíkur sem haldinn verður á Kjarvalsstöðum sunnudaginn 17. ágúst kl. 17.15.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Endurskin frá 1974 er yfirskrift afmælisfagnaðar Kammersveitar Reykjavíkur sem haldinn verður á Kjarvalsstöðum sunnudaginn 17. ágúst kl. 17.15. „Kammersveitin hélt fyrstu tónleika sína fyrir fullu húsi á Þjóðhátíð í Reykjavík hinn 4. ágúst 1974. Okkur fannst tilvalið að endurtaka þessa tónleika 40 árum síðar á sama stað, með sömu efnisskrá og næstum því sama dag,“ segir Rut Ingólfsdóttir, sem var einn stofnenda Kammersveitarinnar og hefur verið í forsvari fyrir sveitinni frá upphafi með stuttu hléi sl. fjögur ár.

„Þegar við stofnuðum Kammersveitina var ég yngst í hópi stofnfélaga en núna er ég sú eina sem er enn að koma fram,“ segir Rut sem sjálf mun leika á tónleikunum á sunnudag ásamt tæplega 30 öðrum hljóðfæraleikurum. „Í tilefni afmælisfagnaðarins ákváðum við að leyfa eins mörgum að koma fram með okkur og verkin leyfa,“ segir Rut og áætlar að á annað hundrað manns hafi starfað með Kammersveitinni frá upphafi og skipta tónleikar sveitarinnar hundruðum.

Á efnisskrá afmælistónleikanna verður Concerto grosso op. 6 nr. 1 í D-dúr eftir Arcangelo Corelli, „Weichet nur, betrübte Schatten“ Brúðkaupskantata BWV 202 eftir Johann Sebastian Bach, Kristallar eftir Pál Pampichler Pálsson frá árinu 1970 og Nonetto eftir Bohuslag Martinu frá árinu 1959. Einsöngvari er Herdís Anna Jónsdóttir og stjórnandi Rúnar Óskarsson.

„Eitt af okkar markmiðum með stofnun Kammersveitarinnar var að leggja áherslu annars vegar á flutning barokktónlistar, sem hafði ekki mikið verið spiluð hérlendis fram að því, og hins vegar 20. aldar tónlistina, bæði íslenska og erlenda. Það er greinilegt að við vildum sýna þessa áherslu okkar á fyrstu tónleikunum með því að hafa barokktónlist fyrir hlé og 20. aldar tónlist eftir hlé.“

Sérstaða okkar hefur breyst

Rut rifjar upp að strax frá fyrsta starfsári hafi Kammersveitin að hausti ávallt kynnt tónleikaár sitt sem samanstendur af þrennum til fernum tónleikum. „Þetta var ansi mikið nýnæmi hér á landi, því á þessum tíma var svo lítið um kammertónlist,“ segir Rut og upplýsir að þetta árið verði Jólatónleikar Kammersveitarinnar 7. desember, sveitin leikur verk eftir Huga Guðmundsson, Hafliða Hallgrímsson og Dobrinka Tabakova undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar á Myrkum músíkdögum 1. febrúar og á lokatónleikum starfsársins hljóma verk eftir frönsku tónskáldin sem nefnd eru Les Six eða Sexmenningarnir, en tónleikarnir eru í samvinnu við franska sendiráðið í Reykjavík 15. mars undir stjórn Pejman Memarzadeh. Tónleikar Kammersveitarinnar í vetur verða allir í Norðurljósasal Hörpu. „Með tilkomu Hörpu er komið fullkomið tónlistarhús sem Kammersveitin hefur leikið í sl. ár, þrátt fyrir mikinn kostnað við húsaleiguna. Fram að vígslu Hörpu héldum við tónleika okkar m.a. í Bústaðakirkju, á Kjarvalsstöðum og Listasafni Íslands auk þess sem jólatónleikarnir voru ávallt í Áskirkju. Þó að aðstaðan geti oft verið erfið í sölum sem ekki eru hannaðir með tónlistarflutning í huga þá er sérstakur andi sem fylgir bæði kirkjum og listasöfnum,“ segir Rut og tekur fram að hún sjái fyrir sér að Kammersveitin muni í framtíðinni sækja til fyrri tíma með einstaka tónleika. „Enda bjóða kirkjur og listasöfn oft upp á meiri nálægð og skemmtilegt andrúmsloft.“

Að mati Rutar hefur sérstaða Kammersveitar Reykjavíkur breyst í áranna rás. „Kammertónleikum hefur fjölgað til mikilla muna, sem helgast af því að þeim hefur fjölgað sem leggja tónlistarnám fyrir sig. Strax um áratug eftir stofnun fórum við óhikað að spila verk fyrir allt að fjörutíu hljóðfæraleikara, sem er hátt upp í sinfóníuhljómsveit. Við bjuggum svo vel að við gátum alltaf leitað til vina okkar og félaga í tónlistarsenunni um að leika með okkur og þar með frumflutt mikinn fjölga erlendra verka sem annars hefðu ekki heyrst hérlendis. Í dag geta svo margir haldið kammertónleika með fáum hljóðfærum. Okkar sérstaða felst hins vegar í því flytja kammerhljómsveitarverk, þ.e. verk fyrir 15-40 hljóðfæraleikara,“ segir Rut og bendir á að sveitin þurfi auðvitað að hafa góðan bakhjarl til að geta boðið upp á svo fjölmenna hljóðfærasamsetningu.

Vonandi verður starfið metið að verðleikum

„Fram að árinu 2007 höfðum við ákveðinn sess og nutum fjárhagsstuðnings frá ríkinu til rekstursins. Þá fór ríkið að draga úr styrk sínum og því eru erfiðir tímar hjá okkur eins og hjá mörgum öðrum. Við ætlum þó að halda ótrauð áfram. Allir hljóðfæraleikarar Kammersveitarinnar spiluðu launalaust fyrstu tíu árin frá stofnun og á sunnudaginn kemur gefa allir vinnu sína, enda er þetta afmælisfagnaður fyrir okkur og okkar trygga hóp. Við treystum því að styrkjamálin verði endurskoðuð þannig að við getum haldið áfram þessu góða starfi. Þó að staðan sé erfið núna erum við bjartsýn. Starf Kammersveitarinnar er mjög merkilegt og hefur skilað miklu inn í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og vonandi verður það metið að verðleikum,“ segir Rut og bendir á að í tilefni afmælisins kemur út sérstakt afmælisrit ritað af Reyni Axelssyni þar sem hann gerir m.a. úttekt á öllu efnisvali sveitarinnar frá upphafi. „Mér féllust hreinlega hendur þegar ég sá þetta á blaði og áttaði mig á umfanginu. Ég hafði alls ekki áttað mig á því að ég hefði spilað alla þessa tónleika og skipulagt þetta allt saman.“

Sem fyrr segir er Rut aftur tekin við stjórnartaumum Kammersveitarinnar eftir örfárra ára hlé. „Ég var beðin að hjálpa til við undirbúning afmælistónleikanna og skipulag næsta vetrar,“ segir Rut og vonar að hún geti rétt keflið áfram síðar. „Ég vil gjarnan hjálpa yngra fólkinu að komast inn í þetta. Það felst glettilega mikil vinna í öllu utanumhaldinu, þó að það líti kannski sakleysislega út á yfirborðinu,“ segir Rut sem unnið hefur allt skipulagsstarfið á umliðnum áratugum í sjálfboðastarfi. „Ég sé aldrei eftir einni mínútu sem ég eyði fyrir Kammersveitina og hef aldrei gert. Þegar ég í vetur var beðin að koma að hjálpa þá ýtti ég glöð öllu öðru til hliðar nema þeim sólótónleikum sem ég var búin að ráðgera í sumar.“

Ómetanlegt fyrir íslenska menningu

Spurð hvað beri að hennar mati hæst í starfi Kammersveitarinnar nefnir Rut strax gjöfult samstarf við Paul Zukofsky sem hafi reynst ómetanlegt og haft mótandi áhrif á starf sveitarinnar. „Hann hvatti okkur til dáða, var sérlega hugmyndaríkur og við gerðum svo margt skemmtilegt með honum, ekki síst þegar kom að því að kynna 20. aldar verk sem ekki höfðu verið spiluð hérlendis áður. Það var líka ógleymanlegt þegar við héldum tónleika með verkum Arvo Pärt árið 1998 og fengum hann til Íslands. Hann var á þeim tíma mjög umsetinn og því kom það mörgum á óvart að mér skyldi takast að fá hann til landsins,“ segir Rut og rifjar upp að Hamrahlíðarkórar Þorgerðar Ingólfsdóttur hafi sungið með Kammersveitinni á umræddum tónleikum. „Í framhaldinu samdi Arvo Pärt verk fyrir Þorgerði og Raddir Evrópu árið 2000 og vináttan helst enn í dag. Af öðrum samstarfmönnum verð ég að nefna Vladimir Ashkenazy, en samstarfið við hann er ógleymanlegt,“ segir Rut og rifjar upp að Kammersveitin hafi farið í stóra tónleikaferð með Ashkenazy til Belgíu og Rússlands árið 2003.

„Síðast en ekki síst verð ég að nefna samstarfið við íslensk tónskáld sem samið hafa verk sérstaklega fyrir okkur. Við erum búin að gefa út meira en 20 geisladiska, mestmegnis með íslensku efni. Mörg tónskáld hafa fengið sína eigin diska, jafnvel tvo. Þetta er ómetanlegt fyrir íslenska menningu, því hvað eru þessi tónverk ef þau eru aldrei spiluð?“