Atvinnuleysi minnkar en stíga þarf ákveðin skref til að minnka það hraðar og meira

Tölur Hagstofunnar um atvinnuástandið, sem birtar voru í gær, sýna að staðan fer batnandi. Á öðrum fjórðungi ársins þurftu 5,9% þeirra sem vildu vinna að sætta sig við atvinnuleysi, en á sama tímabili í fyrra var hlutfallið 6,8%. Þegar verst lét, á öðrum ársfjórðungi árið 2009, voru 9% án atvinnu og batinn síðan þá er því umtalsverður.

Samanburðurinn verður ekki eins hagfelldur þegar litið er til áranna fyrir 2009, en þá var atvinnuleysi á öðrum fjórðungi aðeins 3-4%, sem þýðir í raun að atvinnuleysi var varla fyrir hendi. Slíkt ástand er afar eftirsóknarvert og sjálfsagt að reyna að ná því á nýjan leik. Fátt fer verr með einstaklinga og fjölskyldur en sá drungi, deyfð og oft vonleysi sem atvinnuleysinu fylgir. Ekki er að ástæðulausu að gjarnan er talað um atvinnuleysi sem böl. Full atvinna er þess vegna ekki aðeins efnahagsmál heldur miklu frekar eitt mikilvægasta velferðarmálið, sem sést vel á því að ekkert virkar betur í baráttunni við fátækt en að skapa þau skilyrði að sem flestir hafi atvinnu.

En hvaða leið skyldi vera farsælust til að ná aftur því atvinnustigi sem þekktist lengi vel hér á landi og æskilegt er að stefna að? Vegna þess litla hóps sem heldur enn að öll vandamál verði leyst með aðild Íslands að ESB er sennilega rétt að byrja á að nefna að það væri einhver versta leið sem hægt væri að hugsa sér til að efla atvinnu hér á landi. Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins er miklum mun meira en hér á landi og jafnvel þegar fall bankanna skall sem harðast á almenningi hér náðum við aldrei þeim lægðum sem íbúar Evrópusambandsins mega búa við að staðaldri. Þess vegna má segja að eitt af því sem ástæða sé að gera til að forðast áfall í atvinnumálum sé að losa Ísland undan stöðu umsóknarríkis.

Af veigameiri aðgerðum má nefna að stjórnvöld gætu beitt sér af auknu afli í því að ráðast gegn því ofvaxna regluverki sem víða er að finna hjá hinu opinbera. Þetta er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar en hefur farið hægar af stað en vonir stóðu til og full ástæða til að herða róðurinn enda sumir þættir verkefnisins tímafrekir og þegar rúmt ár er liðið af kjörtímabilinu er ráð að hraða sér þegar slík verkefni eru annars vegar.

Líta mætti á afnám haftanna sem hluta af þessu verkefni um einföldun regluverks, en þó er það í senn svo þýðingarmikið og viðamikið að það er talið sjálfstætt úrlausnarefni. Vinna við afnám haftanna er í gangi og skref hafa verið kynnt sem eiga að stuðla að því að það markmið náist. Vonandi skilar sú vinna árangri en óneitanlega hefur gengið hægt og ekki blasir endilega við að þau skref sem kynnt hafa verið muni leysa málið hratt. Skiljanlegt er að fara þurfi gætilega en um leið er nauðsynlegt að ganga ákveðið til verks því að höftin eru þess eðlis að þau verða þeim mun illviðráðanlegri sem þau fá að standa lengur.

Af öðru sem snýr að rekstri fyrirtækja en um leið heimila er nærtækt að nefna að skattaumhverfið þarf aftur að verða sniðið á þann hátt að það stuðli að atvinnusköpun og efli þrótt atvinnu- og efnahagslífsins, í stað þess að senda öll þau neikvæðu skilaboð sem það gerir enn eftir fjögurra ára vinstristjórn.

Nú er fjárlagavinnan fyrir næsta ár langt komin og mikilvægt að afrakstur hennar verði sá að senda skýr skilaboð til atvinnulífs og almennings um að stjórnvöld ætli sér að vinda ofan af skattkerfi vinstristjórnarinnar og koma aftur á heilbrigðu skattkerfi sem hvetji til uppbyggingar. Vinstristjórnin hækkaði eða lagði á nýja skatta í á annað hundrað skipti, sem er örugglega Íslandsmet og sennilega líka afrek á heimsmælikvarða. Engin ástæða er til að líta á það skattkerfi sem verður til við slíkar hamfarir og fjandskap stjórnvalda í garð atvinnulífsins sem einhvern útgangspunkt í ákvörðun um hvaða skatta ríkið skuli leggja á og hversu háir þeir skuli vera. Þvert á móti ætti að líta þannig á að svo ofsafengnar breytingar beri að draga til baka að fullu áður en farið er að meta hvaða einstök skerf önnur ætti að taka til að efla atvinnu, auka hagvöxt og bæta velferð.