Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Fyrir erlenda ferðamenn er upplifun að koma á svartan sand og sjá tilkomumikið brim,“ segir Mýrdælingurinn Guðni Einarsson í Þórisholti. Hann ásamt konu sinni og bændum frá Reyni og Lækjarbakka stendur að uppbyggingu og rekstri veitingahússins Svörtu fjörunnar í Reynisfjöru, sem opnað var snemma í júlí. Á síðari árum hefur fjaran orðið einn vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna sem um landið fara. Er þetta m.a. fastur viðkomustaður í skipulögðum túristaferðum rútufyrirtækja.
Á syðstu tá
„Hingað kemur mikill fjöldi ferðamanna alla daga ársins. Í þessu sáum við bæði tækifæri og brýna þörf á að koma hér upp veitingahúsi og salernisaðstöðu fyrir allan þann fjölda sem hingað kemur. Engin slík aðstaða var fyrir á staðnum,“ segir Guðni Einarsson. Undirbúningur hófst fyrir rúmu ári og framkvæmdir um áramótin síðustu. Reist var 270 fermetra hús sem er úr steyptum einingum og ytra byrði þeirra er möl úr Reynisfjöru.Áhöld eru um hvort Dyrhólaey eða Kötlutangi er syðsta tá landsins. Slíkt má kannski einu gilda í þessari frásögn, punkturinn er sá að veitingahúsið nýja er það syðsta á landinu sem skapar því sérstöðu. Einnig stórbrotið umhverfi, fjaran, sjórinn. sérstæðar stuðlabergsmyndanir þar og magnað útsýni að Reynisdröngum og Dyrhólaey.
Falli inn í umhverfið
„Þetta verkefni er talsverður pakki, framkvæmd upp á um 100 milljónir. Við vildum hins vegar ekki kasta til höndum og reistum veitingahús sem fellur vel inn í umhverfið. Með því að leggja talsvert í þetta erum við í stakk búinn til að taka á móti þeim mikla fjölda fólks sem hingað kemur. Er áformað að hafa hér opið alla daga ársins,“ segir Guðni.Í fyllingu tímans er ætlunin að hráefni af svæðinu verði áberandi á matseðli Svörtu fjörunnar. Má þar nefna bleikju, lamba- og nautakjöt, ís og gulrófur en Guðni er einmitt einn af umsvifamestu gulrófnabændum landsins.