Helgi Hálfdanarson þýðandi fæddist í Reykjavík 14.8. 1911. Hann var sonur Hálfdanar Guðjónssonar, prófasts og alþm. á Breiðabólstað í Vesturhópi og síðar vígslubiskups Hólabiskupsdæmis, og Herdísar Pétursdóttur húsfreyju.

Helgi Hálfdanarson þýðandi fæddist í Reykjavík 14.8. 1911. Hann var sonur Hálfdanar Guðjónssonar, prófasts og alþm. á Breiðabólstað í Vesturhópi og síðar vígslubiskups Hólabiskupsdæmis, og Herdísar Pétursdóttur húsfreyju.

Hálfdan var sonur Guðjóns Hálfdanarsonar, prests í Saurbæ, og Sigríðar Stefánsdóttur. Bróðir Guðjóns var Helgi Hálfdanarson, sálmaskáld, Prestaskólakennari og alþm..

Herdís var systir Halldóru, móður Þorsteins Briem, prófasts á Akranesi, alþm. og ráðherra. Hún var dóttir Péturs Pálmasonar, bónda á Álfgeirsvöllum í Skagafirði.

Helgi kvæntist 1935, Láru Sigríði Sigurðardóttur sem lést 1970, en þau eignuðust þrjú börn.

Helgi lauk stúdentsprófi frá MA 1930 og prófi í lyfjafræði 1939. Hann var lyfjafræðingur í Reykjavík 1939-43, fyrsti lyfsali Húsavíkurapóteks 1943-63 og lyfjafræðingur í Ingólfs Apóteki 1963-67.

Helga er þó fyrst og fremst minnst sem mikilhæfasta og afkastamesta þýðandi okkar á síðustu öld. Afköst hans í þeim efnum voru með ólíkindum en hann þýddi öll leikrit Shakespeare, gríska harmleiki eftir Æskýlos, Sófókles og Evripídes, Pétur Gaut og fjölda annarra klassískra leikrita í bundnu máli. Þá þýddi hann Kóraninn og fjölda ljóða frá Kína og Japan.

Helgi var mikill áhugamaður um íslenskt mál og íslensk fræði, á mörg snjöll nýyrði sem fest hafa í málinu og skrifaði fjölda pistla og greinar í blöð, einkum Morgunblaðið. Þar stóð hann stundum í ritdeilum við „Hrólf Sveinsson“ sem var hann sjálfur. Meðal góðvina Helga var Þorsteinn Gylfason heimspekingur en þeir voru vanir að skrifast á þó báðir byggju í Reykjavík.

Helgi fékk Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun dagblaðanna, 1970 fyrir þýðingar sínar á William Shakespeare. Hann hafnaði hins vegar verðlaununum og sagðist hafa þá reglu að þiggja aldrei neina viðurkenningu af neinu tagi.

Helgi lést 20.1. 2009.