Pétur segir að kaupin hafi gengið í gegn fyrir nokkrum mánuðum.
Pétur segir að kaupin hafi gengið í gegn fyrir nokkrum mánuðum. — Morgunblaðið/Golli
Fasteignir Pétur Guðmundsson, forstjóri og eigandi verktakafyrirtækisins Eyktar, hefur keypt hlut Íslandsbanka í félögunum Höfðatorg ehf., BE eigna ehf. og Höfðahótela ehf. Þau eiga reitina við Höfðatorg sem eru í byggingu eða eru enn óbyggðir.

Fasteignir

Pétur Guðmundsson, forstjóri og eigandi verktakafyrirtækisins Eyktar, hefur keypt hlut Íslandsbanka í félögunum Höfðatorg ehf., BE eigna ehf. og Höfðahótela ehf. Þau eiga reitina við Höfðatorg sem eru í byggingu eða eru enn óbyggðir.

Pétur var áður eigandi að 27,5% hlut í félögunum eftir skuldauppgjör sitt við bankann og aðra kröfuhafa.

Við Höfðatorg er nú fullbyggður turn og skrifstofubygging sem meðal annars hýsir skrifstofur Reykjavíkurborgar. Þær eignir voru áður í eigu Péturs og Íslandsbanka, en voru seldar fyrir um sextán milljarða til fjárfestingafélagsins FAST-1.

Byggja sextán hæða hótel

Á hinum reitunum er ýmist vinna í gangi við uppbyggingu eða áform um frekari framkvæmdir. Á reit sem er í eigu Höfðahótela ehf. er unnið að byggingu á sextán hæða hótels sem rekið verður af Íslandshótelum. Þar verða 342 herbergi, en heildarfjárfesting er metin á rúma átta milljarða.

Fyrir ofan þann reit eru þrír reitir í eigu Höfðatorgs ehf., en á einum þeirra er áformað að byggja tólf hæða turn með um áttatíu íbúðum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 2016. Þá er einnig til skoðunar að byggja næsta áfanga bílakjallarans undir Höfðatorgi með 175 stæðum. thorsteinn@mbl.is