— Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær þá málamiðlunartillögu sem eigendur lóðanna Grettisgötu 17 og Laugavegar 36A kynntu í liðnum mánuði á fundi með íbúum í grennd við lóðirnar.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær þá málamiðlunartillögu sem eigendur lóðanna Grettisgötu 17 og Laugavegar 36A kynntu í liðnum mánuði á fundi með íbúum í grennd við lóðirnar. Til stóð að rífa 106 ára gamlan silfurreyni og færa gömlu húsin nær götunni. Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs og borgarfulltrúi, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær fagna þessari niðurstöðu.

„Við samþykktum að þessi málamiðlunartillaga færi í auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi. Þar með er ráðið búið að lýsa því yfir að það er samþykkt þessari lausn,“ sagði Hjálmar.

„Lausnin gerir ráð fyrir því að silfurreynirinn standi, gömlu húsin tvö víki, með þeim skilmálum að þessum húsum verði fundinn viðeigandi staður ekki mjög langt í burtu og þau gerð upp,“ sagði Hjálmar.

Þannig yrði fallið frá gríðarlega miklum kjallaraframkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á lóðinni við Grettisgötu, en hluti af húsunum í bakgarðinum yrði hækkaður til þess að bæta upp byggingarmagnið. Þá sagði Hjálmar að ákvæði, um að stígnum milli bygginganna á lóðunum yrði lokað um nætur og helgar, myndi væntanlega gera íbúana í grenndinni sáttari.

„Við álítum að athugasemdir nágrannanna sem gerðar voru í vor og sumar, hafi verið alveg réttmætar og því ákváðum við á fundinum í dag [gær] að taka þennan snúning, í stað þess að standa á því fastar en fótunum sem við vorum búin að samþykkja í skipulagsráði fyrr í vetur. Þannig að ég er nú bara frekar ánægður með þetta,“ sagði Hjálmar.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu hinn 25. júlí sl. kom fram á kynningarfundinum með íbúum í nágrenni lóðanna að fundarmenn virtust flestir vera sáttir við þá tillögu sem kynnt var þar og umhverfis- og skipulagsráð hefur nú samþykkt.