Halldóra Kristjánsdóttir fæddist 8. júní 1920. Hún lést 2. ágúst 2014. Útför hennar fór fram 12. ágúst 2014.

Nú þegar móðir mín er látin verður mér hugsað til baka. Oft er ég hef litið í spegil hef ég hugsað hve lítið ég líkist móður minni í útliti. Aftur á móti geri ég mér æ betur grein fyrir þegar árin líða hversu mikið ég líkist henni hvað flest annað varðar og hve margt ég á henni að þakka.

Móðir mín var hörkudugleg kona sem vann mikið alla tíð, hún var næstyngst fjórtán systkina á Skerðingsstöðum í Reykhólasveit sem nú eru öll farin. Með árunum fóru eldri systkinin að heiman en móðir mín tók við búi ásamt bróður sínum Halldóri. Þar bjuggu einnig lengst af móðir hennar og faðir en móðir mín sinnti þeim allt til dauðadags. Á bænum bjó einnig Þórunn Ísleifsdóttir vinnukona og fóstra móður minnar. Þórunn var henni mjög kær sem sést best á því að ég ber nafn Þórunnar. Veturinn 1939-1940 var hún í Reykjaskóla í Hrútafirði, þá var hún í Húsmæðraskólanum á Laugum í Reykjadal veturinn 1943-1944. Oft var gestkvæmt og margir í heimili á Skerðingsstöðum, sérstaklega á sumrin er eldri systkini og systkinabörn voru heima við. Eiginleikar mömmu komu þá strax fram, dugnaður, skipulagshæfni, óeigingirni, trygglyndi og ósérhlífni. Er móðir mín var 36 ára gömul flutti hún suður til Reykjavíkur. Nokkru síðar festi hún kaup á fokheldri húseign í Akurgerði 3 ásamt Ingibjörgu systur sinni. Árið 1960 eignaðist hún mig 39 ára gömul og varð einstæð móðir. Það var ekki auðvelt hlutskipti konu á þeim árum auk þess sem hún vildi ekki láta nafn barnsföður síns uppi. Dómur samtímans var harður en móðir mín bognaði en brotnaði ekki, það setti þó mark á allt hennar líf eftir það. Lengst af starfsævi sinnar fyrir sunnan vann hún sem matráðskona hjá Pósti og síma uppi á Jörfa. Síðar vann hún nokkur ár hjá prjónastofunni Lespjóni, eða allt til ársins 1987 er hún hætti þar vinnu sökum aldurs. Síðar greindist hún með Alzheimer-sjúkdóminn og var með hann í um 20 ár, þar af hefur hún dvalið síðustu tíu árin á dvalarheimili. Fyrst í sambýlinu Bakkahlíð en nú í nær tvö ár í Bandagerði, Lögmannshlíð, Akureyri. Vil ég færa starfsfólki Bakkahlíðar og Bandagerðis innilegar þakkir fyrir umönnun hennar og alla alúð.

Ingibjörg og móðir mín fluttu ásamt mér þegar ég var eins árs gömul í Akurgerðið. Æskuheimili mitt var fallegt heimili, vönduð húsgögn, fullar bókahillur og á veggjum héngu útsaumsmyndir eftir móður mína og íslensk málverk, öllu var vel við haldið. Þær systur stýrðu saman heimili og ólu mig saman upp. Það er til marks um kjark þeirra og dugnað að þær lærðu báðar á bíl á efri árum, mamma um fimmtugt og Inga um sextugt.

Ég er alin upp við mikið ástríki, röð og reglu og jákvæðan aga. Ég var hvött til dáða í því sem ég tók mér fyrir hendur þrátt fyrir að það þýddi að þær nytu mín ekki við á efri árum.

Móðir mín var trúuð kona. Hún var 94 ára gömul er hún lést, södd lífdaga og hafði lengi háð sína baráttu.

Elsku móðir mín, ég á þér svo margt að þakka, blessuð sé minning þín. Guð blessi þig og verndi í því ferðalagi sem þú tekur þér nú fyrir hendur.

Agnes Þórunn.

Nú er komið að kveðjustund ömmu Dóru. Þegar ég hugsa til ömmu Dóru fara minningarnar með mig í Akurgerðið til hennar og ömmu Ingu. Heimsóknir þangað, bæði þar sem ég fór með mömmu og pabba ásamt bræðrum mínum eða þar sem ég var ein, koma í hugann. Ég man eftir að liggja með ömmu í rúminu hennar og hlusta á Jónas Jónasson í útvarpinu seint að kvöldi. Minningar um gönguferðir með ömmu Dóru upp í lystigarð og strætóferðir niður að andapolli. Maður fékk líka ýmislegt góðgæti í borginni, kók og appelsín í gleri sem geymt var í litla búrinu undir stiganum og fylltir molar sem amma Dóra geymdi í fataskápnum sínum. Yfir ömmu bjó alltaf mikil ró og jafnaðargeð og minnist ég þess. Það er furðulegt hvernig lífið fer með fólk en fyrir um það bil 20 árum greindist hún með alzheimer og fór minnið smám saman að hverfa hjá ömmu. Þegar ömmurnar hættu að geta búið í Akurgerðinu flutti amma Dóra til okkar norður. Á þeim tíma kynntist maður ömmu á annan hátt en ég gerði sem barn þar sem sjúkdómurinn var farinn að ágerast. Eftir því sem árin liðu fór minnið þverrandi og síðustu ár þekkti hún mig ekki lengur. Í hvert sinn sem ég kom með börnin mín í heimsókn var maður að kynna þau fyrir henni í fyrsta skipti. Hún var samt yfirleitt mjög glöð að sjá þau og dást að þeim. Kynni mín og ömmu hafa kennt mér svo margt og vil ég minnast hennar með þessu ljóði sem ég fann eftir Siggu Dúu.

Hvernig er hægt að þakka,

það sem verður aldrei nægjanlega þakkað.

Hvers vegna að kveðja,

þann sem aldrei fer.

Við grátum af sorg og söknuði

en í rauninni ertu alltaf hér.

Höndin sem leiddi mig í æsku

mun gæta mín áfram minn veg.

Ég veit þó að víddin sé önnur

er nærveran nálægt mér.

Og sólin hún lýsir lífið

eins og sólin sem lýsti frá þér.

Þegar að stjörnurnar blika á himnum

finn ég bænirnar sem þú baðst fyrir mér.

Þegar morgunbirtan kyssir daginn,

finn ég kossana líka frá þér.

Þegar æskan spyr mig ráða,

man ég orðin sem þú sagðir mér.

Vegna alls þessa þerra ég tárin

því í hjarta mínu finn ég það,

að Guð hann þig amma mín geymir

á alheimsins besta stað.

Ótti minn er því enginn

er ég geng áfram lífsins leið.

Því með nestið sem amma mín gaf mér,

veit ég að gatan hún verður greið.

Og þegar sú stundin hún líður

að verki mínu er lokið hér.

Þá veit ég að amma mín bíður

og með Guði tekur við mér.

Dóra Rún Kristjánsdóttir.