Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar í bönkum, sem til hefur staðið að innleiða í íslenska löggjöf, auki áhættu skattgreiðenda til muna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að fjölmargar spurningar vakni áður en það sé sjálfgefið hvort og hvernig Ísland innleiði þessa tilskipun.
Samkvæmt tilskipuninni munu sparifjáreigendur njóta verndar að lágmarki hundrað þúsund evra, sem jafngildir tæpum sextán milljónum króna, fari banki í gjaldþrot. Innistæðutryggingin nemur í dag um tuttugu þúsundum evra, sem jafngildir rúmum þremur milljónum króna, fyrir hvern innistæðueiganda í viðkomandi banka.
Tilskipunin gengur ekki upp
„Þetta er alltof áhættusamt fyrir skattgreiðendur. Það verður að lágmarka alla áhættu skattgreiðenda. Þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma héldum við að ábyrgðin myndi færast frá skattgreiðendum og yfir á eigendur bankanna.En það var því miður ekki raunin og menn þurfa að nálgast málið út frá því. Það er kjarninn,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við ViðskiptaMoggann.
Verði tilskipunin leidd í lög hér á landi þýði það að erfitt, ef ekki ómögulegt, sé fyrir íslenska ríkið að standa við skuldbindingar innistæðutryggingarsjóðs, sem stjórnvöld þurfa að setja á laggirnar, fari svo að einn af stóru viðskiptabönkunum fari í gjaldþrot.
Rætt var um tilskipunina, sem var nýlega samþykkt, á sameiginlegum fundi efnahags- og viðskiptanefndar og utanríkismálanefndar Alþingis í fyrradag.
Guðlaugur Þór segir að tilskipunin gangi ekki upp hér á landi, þar sem aðeins þrír stórir bankar séu til staðar. Ekki sé hægt að búa til tryggingakerfi á svo fábreyttum fjármálamarkaði.
Hann bendir á að tryggingar séu í eðli sínu dreifing á áhættu. Innistæðutryggingakerfið eigi uppruna sinn í Bandaríkjunum þar sem mörg þúsund fjármálastofnanir séu aðilar að því. Í Evrópu sé síðan hverju ríki gert að setja upp sinn eigin tryggingasjóð. Það hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel upp í fjölmennum ríkjum álfunnar og sé fullkomlega vonlaust í minni ríkjum.
Sáralítil áhættudreifing
Hann bendir jafnframt á að innistæður á Íslandi nemi rúmlega landsframleiðslu. Stóru viðskiptabankarnir þrír séu með mjög stóran hluta, eða um 96%, af innistæðunum og því sé áhættudreifingin í raun sáralítil. Miðað við þá útreikninga sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk í hendurnar fyrir um tveimur árum, þá myndi það taka innistæðutryggingasjóðinn tæpa öld að safna fyrir innistæðum færi svo að einn bankinn færi á hliðina.„Við verðum að láta á það reyna,“ segir Guðlaugur Þór, aðspurður hvort hægt sé – með einhverjum hætti – að komast undan því að tilskipunin taki gildi hér á landi. „Það þarf að benda á gallana við þessa tilskipun og taka hreinlega slaginn. Þetta er ekki bara vandamál fyrir okkur, heldur miklu fleiri.
Menn eru að búa til eitthvert kerfi sem veitir svo sannarlega falskt öryggi,“ segir Guðlaugur Þór.
Hann nefnir þó einnig að helstu rökin fyrir innleiðingu tilskipunarinnar séu þau að til standi að gera aðrar breytingar, svo sem nýjar kröfur um aukið eigið fé, sem tryggi það að líkurnar á efnahagsáföllum minnki. Það sé allt gott og blessað.
Óvissa um ríkisábyrgðina
Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Steingrímur J. að hægt sé að velta því fyrir sér hvort Íslendingar geti samið sig frá innleiðingunni. Spurningin sé hins vegar hvaða skilning við fengjum á þeirri sérstöðu. „Það er ekki einfalt að standa fyrir utan ef allir aðrir á Evrópska efnahagssvæðinu innleiða tilskipunina,“ segir hann og bætir við að helst sé það þá spurning um hvort mögulegt sé að semja um sérstakan aðlögunartíma vegna tímabundinna aðstæðna hér heima.Hann nefnir jafnframt að óvissa ríki enn um ríkisábyrgðina. „Því miður virðist þessi tilskipun ekki ætla að taka neitt af skarið um stöðu ríkisins á bak við innistæðutryggingakerfið. Það er stórskrýtið í ljósi reynslunnar. En maður hlýtur að ætla að það sé viljandi gert að hafa það loðið,“ segir Steingrímur J.