Vofa uppreisna hlutabréfaeigenda mun ganga ljósum logum um Evrópu á sama tíma og þrýstingur á stjórnir skráðra fyrirtækja eykst. Ástæðan fyrir þessu er að einn stærsti fjárfestir heims, norski olíusjóðurinn, ætlar framvegis að lýsa því yfir fyrir aðalfundi fyrirtækja hvernig hann mun greiða atkvæði um tillögur sem fyrir þeim liggja.
Ákvörðun sjóðsins, sem stýrir 870 milljörðum Bandaríkjadala og er einn stærsti ríkisfjárfestingasjóður heims, markar þáttaskil í hluthafamenningu Evrópu. Fram til þessa hefur heyrt til undantekninga að þeir gefi upp hvernig þeir hyggjast ráðstafa atkvæðum sínum á hluthafafundum.
Á hlut í 8.000 fyrirtækjum
Sjóðurinn, sem er rekinn af eignaumsýslufyrirtæki norska seðlabankans, hefur nú þegar það orð á sér að beita sér á hluthafafundum þegar kemur að ákvörðunartöku um launakjör og ábyrgðarskyldu. Þetta hefur hann gert á hlutahafafundum lúxusvöruframleiðandans Burberry og Goldman Sachs.Fram til þessa hefur sjóðurinn einungis upplýst hvernig hann greiddi atkvæði að loknum ársfundum. En nú hefur sjóðurinn tekið ákvörðun um að opinbera hvernig hann hyggst beita atkvæðum sínum á ársfundum „valinna fyrirtækja“ frá og með næsta ári.
„Að okkar mati mun þessi ákvörðun auka gagnsæi reksturs sjóðsins og hvernig við mótum afstöðu til tillagna á hluthafafundum,“ sagði talsmaður norska olíusjóðsins við Financial Times.
Norski olíusjóðurinn á hlut í meira en átta þúsund fyrirtækjum og samsvarar verðmæti eignanna því að hann eigi 2,5% í hverju einasta fyrirtæki sem er skráð á hlutabréfamarkað í Evrópu. Stefna sjóðsins er að á endanum muni afstaða hans til tillagna á öllum ársfundum félaga sem hann á í liggja fyrir hvern fund.
„Spennandi þróun“
„Þetta er mjög spennandi þróun og mun leiða til þess að aðrir stofnanafjárfestar taki að beita sér í auknum mæli,“ segir Hans Hirt, framkvæmdastjóri hjá Hermes EOS, sem er sjóður sem beitir sér með beinum hætti í þeim fyrirtækjum sem hann fjárfestir í.Hirt segir ennfremur að margir fjárfestar fylgist grannt með því hvaða fyrirtækjum norski olíusjóðurinn fjárfesti í og þar af leiðandi muni ákvörðun sjóðsins um að gefa út hvernig hann greiðir atkvæði á ársfundum „líklega hafa veruleg áhrif á hvernig aðrir stofnanafjárfestar beita sér“.
Á síðustu þremur árum hefur borið á uppreisnum hluthafa á ársfundum gegn stjórn fyrirtækja á borð við Barclays, ITS og WPP. Hafa menn af þessu tilefni talað um „vor hlutabréfaeigenda“. Verðmæti hlutafjáreignar norska olíusjóðsins í breskum félögum nemur um 74 milljörðum dala og að sögn Bloomberg á hann 4% hlut í Tesco, 4% hlut í Prudential og 3% hlut í orkufyrirtæknu SSE.
Greining á atkvæðum olíusjóðsins á síðustu ársfundum sýnir að hann kaus gegn tillögum um launastefnu hjá fyrirtækjum á borð við Fiat og Morgan Stanley og jafnframt að hann neitaði að samþykkja tillögu endurskoðenda á ársfundum Bank of America og AP Møller-Maersk.
Olíusjóðurinn greiddi jafnframt atkvæði gegn tillögu um að Jamie Dimon gegndi stjórnarformennsku hjá JP Morgan og gegn fjölda tillagna stjórna á ársfundum Nokia, Ericsson, Pirelli, SAS og Carlsberg. Í dag opinberar sjóðurinn hvernig hann greiddi atkvæði degi eftir að ársfundur fer fram.
Á undanförnum vikum hafa fulltrúar sjóðsins fundað með verðbréfafyrirtækjum í Bretlandi til þess að upplýsa þau um breytingarnar þannig að þau geti komið skilaboðum áleiðis til fyrirtækja.
Beitir sér í meira mæli
Ákvörðun sjóðsins er síðasta skrefið sem hann tekur í átt að því að verða virkari fjárfestir. Sjóðurinn hefur áður lýst því yfir að hann muni hafa áhrif á hvernig stjórnir þeirra fyrirtækja sem hann fer með stóra eignarhluti í séu skipaðar. Sjóðurinn stefnir ennfremur að því að fjölga þeim félögum sem hann á 5% eða meira í úr 45 í 100. Hann hefur einnig skipað sérstaka stjórn sem ráðleggur sjóðnum um góða stjórnarhætti fyrirtækja.Í Bandaríkjunum hafa nokkrir stórir lífeyrissjóðir á borð við Calpers og Calstrs tekið upp á því að lýsa yfir hvernig þeir hyggjast greiða atkvæði á ársfundum. En þar sem þeir lýsa því yfir skömmu fyrir fundina hefur þetta ekki haft áhrif á umræður um tillögur sem liggja fyrir á fundunum.
Fyrr á þessu ári var Warren Buffett, stjórnandi Berkshire Hathaway, gagnrýndur af hlutafjáreigendum þar sem hann upplýsti ekki að hann hefði í krafti 9% hlutar í Coca Cola ekki stutt tillögu um launakjör framkvæmdastjóra gosdrykkjaframleiðandans, fyrr en eftir ársfund félagsins.
Stöðnunarmerki á evrópska myntsvæðinu
Viðmiðið fyrir daglánavexti á evrusvæðinu er komið í 0,01% og hefur það aldrei verið lægra. Þróunin endurspeglar áhyggjur af því að tekið sé að fjara undan veikburða hagvexti á hinu sameiginleg myntsvæði.Um er að ræða millibankadagvexti sem endurspegla meðaltal allra daglána á evrusvæðinu (EONIA) og fylgjast sérfræðingar grannt með þróun þeirra auk þess sem þeir hafa áhrif á lánakjör milljóna heimila og fyrirtækja í Evrópu. Eftir að þeir féllu á þriðjudag hafa þeir ekki verið lægri frá því að evran leit dagsins ljós.
Lækkunin á millibankadagvöxtunum kemur í kjölfar tilkynningar Evrópska seðlabankans (ECB) í júní að hann myndi grípa til frekari aðgerða til þess að auka lausafé í umferð.
„Þegar lágir millibankadagvextir haldast í hendur við væntingar um að ECB haldi áfram að auka lausafé í umferð þrýstir það almennum vöxtum niður,“ segir Giuseppe Maraffino, yfirmaður greininga á peningamarkaði hjá Barclays.
Ástandið núna er ólíkt því sem var uppi fyrr á þessu ári. Þá greiddu bankar á evrusvæðinu upp langtímalán sem tekin höfðu verið hjá ECB í miklum mæli og varð það til þess að þrýstingur á vexti jókst. Að sama skapi magnaðist upp ótti um að hækkandi vextir myndu hamla frekari hagvexti og leiða til hækkunar á gengi evrunnar.
Til að bregðast við þessu voru dagvextir á reikningum innlánastofnana hjá ECB gerðir neikvæðir og seðlabankinn tilkynnti enn fremur að hann myndi kasta út nýrri 400 milljóna króna lánalínu handa fjármálafyrirtækjum. Jafnframt lýsti ECB því yfir að hann myndi hætta að draga til sín um 165 milljarða evra af lausafé frá mörkuðum í viku hverri en það hafði hann gert til að stýfa inngrip sín á markaði á árunum 2010 til 2011.
Í síðustu viku staðfestu hagtölur að ítalska hagkerfið væri runnið á ný inn í samdráttarskeið og á sama tíma sýndu þær að iðnaðarframleiðsla í Þýskalandi væri undir væntingum. Þróunin þykir benda til þess að ECB muni grípa til frekari aðgerða til þess að róa veikburða markaði.
„Á undanförnum vikum hefur orðið ljóst að umsvif í hagkerfum evrusvæðisins eru að dragast saman. Þróunin vekur væntingar um að ECB muni ganga enn lengra í aðgerðum sínum og fari jafnvel að kaupa eignatryggð skuldabréf eða grípi til annarra úrræða til að auka lausafé á markaði,“ segir Chaigneau, yfirmaður alþjóðlegra vaxtaviðskipta hjá Société Générale.
Krafan á þýsk bréf neikvæð
Á sama tíma og þetta á sér stað hefur spenna í alþjóðamálum leitt til þess að krafan á ríkisskuldabréf hefur lækkað. Krafan á tveggja ára þýskum ríkisskuldabréfum er nú neikvæð sem þýðir með öðrum orðum að fjárfestar borga nú fyrir öryggið sem þau veita. Krafan á þýsk ríkisskuldabréf til tíu ára hefur einnig lækkað og er hún nú að nálgast 1%.Síðast þegar krafan á þýsk ríkisskuldabréf fór niður fyrir núll í nokkra daga var árið 2012 en þá óttuðust fjárfestar að evrusvæðið væri að liðast í sundur. Bankamenn rekja hins vegar þróunina núna til væntinga um að ECB muni ekki hækka vexti í fyrirsjáanlegri framtíð.
„Fjárfestar hafa í auknum mæli sóst eftir öruggum eignum en að sama skapi hafa þeir ekki breytt samsetningu eignasafna sinna og flúið áhættusamari eignir,“ segir Salford, sérfræðingur á evrópska skuldabréfamarkaðnum hjá JP Morgan. „Ástæðan fyrir þessu er sú að fjárfestar telja að ECB muni hreinlega ekki geta hækkað vexti á næstu árum.“
Framtakssjóðirnir kvaddir
Skuldsettar yfirtökur gengu yfir markaði eins og flóðbylgja á árunum 2004 til 2008. Sumir virðast telja að eyðileggingarmáttur bylgjunnar hafi verið meiri en raun ber vitni. Hluthafar í fyrirtækjum sem voru tekin yfir af klíku framtakssjóða (e. private equity) í fremstu röð höfðuðu mál á hendur þeim. Sjóðunum er gefið að sök að hafa samráð sín á milli um að yfirbjóða ekki hver annan í slagnum um fyrirtæki til að taka yfir.Það er kaldhæðnislegt að kaupverðið sjálft í þessum viðskiptum skipti oftar en ekki litlu um hvernig fór. Fyrirtækin sem voru tekin yfir voru skuldsett upp í rjáfur og í sumum tilfellum urðu fjárfestingarnar í þeim einskis virði. Efnahagskreppan bætti ekki úr skák. Í síðustu viku sömdu TPG, KKR og Blackstone utan dómssalar og greiddu 325 milljónir dala án þess að játa á sig sök. Eftir stendur Carlyle Group í málaferlum í dómssal. Það að vita hvenær eigi að skera á línuna – hvort sem er um að ræða dómsmál eða fjárfestingaákvarðanir – er ein af ástæðunum fyrir því að þessir sjóðir hafa notið velgengni.
Þessar gríðarlega miklu skuldsettu yfirtökur eru minnisvarði um tímabil. Framtakssjóðirnir sem þá stóðu í fremstu röð voru í góðri stöðu til að fjármagna yfirtöku á skráðum félögum að verðmæti 5 til 50 milljarða dali. Átta árum síðar hefur komið á daginn að þessi strandhögg gáfu ekki alltaf mikið í aðra hönd. Til að mynda er TXU, sem var tekið yfir á 48 milljarða dala í stærstu skuldsettu yfirtöku allra tíma, nú orðið gjaldþrota. Fleiri fyrirtæki sem tekin voru yfir eru nú á vonarvöl.
Kjöraðstæður hafa verið fyrir fjárfesta í ár til að reyna yfirtöku á stórum, skráðum fyrirtækum. En starfsemi framtakssjóða hefur breyst síðasta áratug. Margir þeirra eru nú skráðir á markað. Þeir segjast nú stunda „óhefðbundnar fjárfestingar“ og auk hlutabréfamarkaða beina þeir nú sjónum sínum að fasteigna- og lánamörkuðum.Núna reyna þeir að hafa sem mest fé í stýringu til þess að tryggja sem mestar þóknanatekjur. Fjárfestingastarfsemi sjóðanna beinist ekki lengur að dýrum, skráðum félögum þar sem hægt er að fá betri ávöxtun með því að kaupa minnihlutaeign í öðrum fyrirtækjum eða taka yfir rekstrareiningar stórfyrirtækja sem ekki hefur verið hirt um. Það að samið hafi verið í málaferlunum um leynimakkið markar ekki bara endalok dómsmálanna heldur einnig endalok ákveðins tímabils.