ÍBV var í gær sektað um 150 þúsund krónur af KSÍ vegna framkomu eins stuðningsmanns liðsins á leik gegn KR í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu í lok síðasta mánaðar.

ÍBV var í gær sektað um 150 þúsund krónur af KSÍ vegna framkomu eins stuðningsmanns liðsins á leik gegn KR í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu í lok síðasta mánaðar. Stuðningsmaðurinn beitti Farid Zato, þeldökkan leikmann KR, kynþáttaníði með hrópum sínum á meðan á leik stóð.

Í yfirlýsingu frá ÍBV segir að Eyjamenn fagni því að KSÍ taki strangt á kynþáttaníði og að téður stuðningsmaður hafi nú verið settur í ótímabundið bann á Hásteinsvelli. Samkvæmt nýju ákvæði í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðamál, sem sett var inn vegna tilskipunar FIFA í janúar, skal hinn brotlegi sæta leikvallabanni til tveggja ára hið minnsta.

Í yfirlýsingu ÍBV er jafnframt minnst á að leikmenn ÍBV hafi áður orðið fyrir árásum líkt og þeim sem Zato mátti sæta. Í fyrra var knattspyrnudeild Keflavíkur til að mynda sektuð vegna framkomu stuðningsmanns liðsins í garð Tonny Mawejje sem þá lék með ÍBV. Keflvíkingar fengu hins vegar fimmfalt lægri sekt en ÍBV nú, sekt upp á 30 þúsund krónur, vegna þess að hin nýju ákvæði þar sem strangar er tekið á hvers kyns mismunun voru ekki komin í gagnið.

Eyþór kostaði Víking 100.000

Það reyndi enn frekar á hin nýju ákvæði á fundi aganefndar á þriðjudaginn því þar var jafnframt tekin fyrir hegðun Eyþórs Helga Birgissonar, leikmanns Víkings Ólafsvík, eftir að hann fékk rautt spjald í leik gegn Grindavík hinn 9. ágúst. Eyþór fékk rautt spjald fyrir að stjaka við leikmanni Grindavíkur og á leið sinni af vellinum lét hann ljót orð falla í garð annars aðstoðardómara leiksins, Viatcheslav Titov, sem er af rússnesku bergi brotinn. Þeir Eyþór og Titov léku saman í yngri flokkum HK á sínum tíma. Eyþór fékk 5 leikja bann vegna hegðunar sinnar og knattspyrnudeild Víkings Ó. var sektuð um 100 þúsund krónur. Hvort tveggja eru lágmarksrefsingar vegna brots á hinum nýju reglum sem tengjast mismunun.

Víkingar hyggjast ekki una úrskurði aganefndar. Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar Víkings staðfesti það við Morgunblaðið í gærkvöld að félagið hygðist áfrýja úrskurðinum en Víkingar telja Eyþór borinn röngum sökum. sindris@mbl.is