Norwegian Flugfélagið flýgur til Íslands frá Ósló og Bergen.
Norwegian Flugfélagið flýgur til Íslands frá Ósló og Bergen. — Ljósmynd/Norwegian
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Norska flugfélagið Norwegian er með til skoðunar að fjölga flugferðum til Íslands.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Norska flugfélagið Norwegian er með til skoðunar að fjölga flugferðum til Íslands. Félagið nýtti sér ekki afgreiðslutíma sem því voru úthlutaðir á Keflavíkurflugvelli í sumar vegna flugs til og frá Kaupmannahöfn og Lundúnum.

Lasse Sandaker-Nielsen, upplýsingafulltrúi Norwegian, segir við Morgunblaðið að umsóknin um afgreiðslutíma hafi verið hluti af venjubundnum undirbúningi að mögulegum nýjum flugleiðum.

„Þegar við íhugum nýjar flugleiðir er algengt að við sækjum um afgreiðslutíma á flugvöllum. Það er gert á frumstigi athugunar á því hvort rekstur á flugleiðunum er mögulegur á tilteknum dögum og tímum sólarhrings. Því miður höfum við ekki möguleika á því að fljúga á öllum flugleiðunum sem við erum nú að íhuga. Keflavíkurflugvöllur er afar áhugaverður áfangastaður fyrir Norwegian og þessar tvær flugleiðir verða teknar til skoðunar aftur þegar svigrúm til nýrra flugleiða skapast á ný,“ segir Sandaker-Nielsen.

Horft til vaxtar Easy Jet

Spurður hvort áætlanir Easy Jet um fjölgun ferða til Íslands hafi haft áhrif á ákvörðun Norwegian segir hann samkeppni skipta máli. „Varðandi flug Easy Jet til Íslands er samkeppni [á flugleiðum] ávallt mikilvægur þáttur þegar við leggjum mat á nýjar flugleiðir og við fylgjumst stöðugt með keppinautum okkar. Samkeppnin ein og sér mun hins vegar ekki koma í veg fyrir að við hefjum flug á nýjum flugleiðum.“

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þarf flugfélag að nýta sér afgreiðslutíma í að minnsta kosti 80% tilvika til að eiga rétt á sömu úthlutun á næsta tímabili. Tvö tímabil eru ár hvert, sumar og vetur.