EBITDA HS Orku hækkaði um 4% á fyrri árshelmingi 2014.
EBITDA HS Orku hækkaði um 4% á fyrri árshelmingi 2014. — Morgunblaðið/Ómar
Orkumál Orkufyrirtækið HS Orka hagnaðist um 715 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2014, samanborið við 1.480 milljón króna tap á sama tímabili árið áður.

Orkumál

Orkufyrirtækið HS Orka hagnaðist um 715 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2014, samanborið við 1.480 milljón króna tap á sama tímabili árið áður.

Fram kemur í árshlutareikningi fyrirtækisins, sem var birtur í gær, að rekstrartekjur hafi numið samtals 3.582 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins og stóðu þær nánast í stað á milli ára.

EBITDA-rekstrarhagnaður HS Orku jókst um 50 milljónir og nam 1.342 milljónum á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall félagsins er mjög sterkt og var 59,7% í lok júní 2014.

Líkt og oft áður eru það fjármagnsliðir sem hafa talsverð áhrif á afkomu félagsins. Þannig var breyting á virði afleiðna (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) neikvæð um 242 milljónir en á sama tíma árið 2013 var hún hins vegar neikvæð um tæplega fjóra milljarða króna. Gengishagnaður nam 221 milljónum en í fyrra var þessi hagnaður 1.126 milljónir.

Fram kemur í tilkynningu félagsins að rekstrarkostnaður lækkaði um 1%.