Það er bæði hollt og mannbætandi að stíga stöku sinnum út fyrir þægindahringinn svokallaða. Koma sjálfum sér í nýjar og stundum ókunnar aðstæður sem fá hjartað til þess að slá ögn hraðar.

Það er bæði hollt og mannbætandi að stíga stöku sinnum út fyrir þægindahringinn svokallaða. Koma sjálfum sér í nýjar og stundum ókunnar aðstæður sem fá hjartað til þess að slá ögn hraðar. Ákveðin meginregla virðist gilda um slíkar betrumbætur á sjálfinu, en hún er þessi: Eftir því sem óþægilegra er að stíga út fyrir þægindahringinn meðan á þeirri raun stendur, því mun þægilegri verður tilfinningin á eftir þegar raunin er afstaðin.

Þetta var tilfellið fyrr í sumar þegar Víkverji skráði sig sjálfviljugur á salsa-dansnámskeið. Á hverjum fimmtudegi í þrjár vikur fékk Víkverji kvíðakast, með tilheyrandi svitakófi, á meðan hann steig dans í níutíu mínútur. Í það minnsta steig Víkverji eitthvað sem honum þótti vera dans á þeim tímapunkti.

Í hvert skipti sem Víkverja fannst hann finna taktinn renna um æðar sér og mjaðmirnar sveiflast af mikilli innlifun, var hann jafnoft minntur á að hann væri líkari belju á svelli í tilþrifum sínum. Ástæðan var sú að gríðarstórir speglar stóðu fremst í salnum svo að dansflokkurinn gæti fylgst með eigin tilburðum. Speglarnir sinntu einnig því hlutverki að ná Víkverja niður á jörðina þegar hann gleymdi sér í seiðandi danssveiflu. Já, Víkverji dansar til þess að gleyma.

Víkverji fór með maka sínum á námskeiðið, enda er gaman að skapa skemmtilegar minningar með þeim sem maður elskar. Fyrirkomulag námskeiðsins gerði það þó að verkum að Víkverji varði mestum tíma dansandi við konur annarra manna, á meðan hann horfði á sömu menn dansa við sína eigin. Það var í sjálfu sér mannbætandi út af fyrir sig og hefði getað verið auglýst sem sjálfstæður hluti af námskeiðinu. En hvað sem því líður þykir Víkverja gaman að skora á sjálfan sig og sérstaklega þegar hægt er að hlæja að á eftir. Því eins og áður sagði, tilfinningin er alltaf góð á eftir.