Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is „Það er hlutverk fjárlaganefndar að hafa eftirlit með fjárlögum, þannig að það er mjög gott að nefndin ræki það hlutverk.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

„Það er hlutverk fjárlaganefndar að hafa eftirlit með fjárlögum, þannig að það er mjög gott að nefndin ræki það hlutverk. Það var kallað eftir skýringum og við veittum skýringarnar og þá tel ég og vona að það sé fullnægjandi,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um ummæli Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, sem gagnrýndi í Morgunblaðinu í gær að 234 milljónir króna hefðu verið veittar til framkvæmdasjóðs ferðamannastaða án samþykkis Alþingis.

Í tilkynningu sem birt var á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á þriðjudag kemur m.a. fram að um hafi verið að ræða sérstaka úthlutun „vegna verkefna sem talin voru sérstaklega brýn vegna verndunar náttúru og öryggissjónarmiða“.

„Það var samþykkt þarna aukafjárveiting í ríkisstjórn á grundvelli þess að málið væri aðkallandi og þyldi ekki bið og færi þess vegna á fjáraukalög, með fyrirvara um samþykki Alþingis að sjálfsögðu,“ segir ráðherrann.

En er þetta forsvaranleg aðferð – hvað ef Alþingi samþykkir ekki fjárveitinguna?

„Því verða þeir að svara sem fara með framkvæmdahliðina á lögunum,“ segir Ragnheiður Elín en bendir á að ríkisstjórnin hafi verið einhuga í ákvörðun sinni og að stjórnarflokkarnir hafi drjúgan meirihluta á þingi.

Sakar formanninn um ofsa

Í pistli sem birtur var á vefsíðu BSRB í gær segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður bandalagsins, að dapurlegt hafi verið að fylgjast með umræðu fulltrúa meirihluta fjárlaganefndar í kjölfar birtingar árshlutauppgjörs Fjársýslu ríkisins um fjárreiður ríkissjóðs. Hún segir umræður formannsins, Vigdísar Hauksdóttur, um störf opinberra starfsmanna hafa einkennst af ofsa og að hún hafi ítrekað gerst sek um alls kyns rangfærslur.

„Margar stofnanir hafa þurft að skera mikið niður á yfirstandandi fjárlagaári og m.a. þurft að segja upp starfsfólki. Verkefnum þessara stofnana hefur á sama tíma ekki fækkað og raunar hafa þau víða aukist,“ segir Elín Björg en starfsfólk hins opinbera hafi unnið mikið og óeigingjarnt starf á sama tíma og stöðugt hafi verið vegið að starfsheiðri þess. „Þetta sama fólk hefur þrátt fyrir illt umtal, stöðugan niðurskurð og uppsagnir samstarfsmanna náð að sinna sínum verkefnum og gert það vel. Þetta starfsfólk á betra skilið en þessar köldu kveðjur.“

Ekki náðist í Vigdísi Hauksdóttur í gær.