Biðstaða Eggert Gunnþór í baráttu við Gökhan Inler í viðureign Íslendinga og Svisslendinga í undankeppni HM.
Biðstaða Eggert Gunnþór í baráttu við Gökhan Inler í viðureign Íslendinga og Svisslendinga í undankeppni HM. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég er með allt í biðstöðu.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég er með allt í biðstöðu. Ég er búinn að vera í basli með nárann nánast allt síðasta ár og vil núna jafna mig almennilega af þessum meiðslum,“ sagði Eggert Gunnþór Jónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu. Eskfirðingurinn er þessa dagana hér á landi og einbeitir sér að því að jafna sig af langvinnum nárameiðslum.

Eggert fékk samningi sínum við portúgalska félagið Belenenses rift fyrir skömmu, eftir eitt tímabil í Lissabon. Tímabil sem leystist upp í vonbrigði fyrir þennan 26 ára gamla miðjumann.

„Ég meiddist fyrst tveimur vikum áður en tímabilið hófst. Ég var svo í lagi fyrstu 2-3 mánuðina eftir jól en svo fór ég að finna fyrir meiðslunum aftur og þannig var það út tímabilið. Svo fann ég aftur fyrir þessu þegar undirbúningstímabilið hófst núna. Mér fannst þeir ekki höndla þetta nægilega vel þarna úti í Portúgal þannig að ég náði bara að semja um starfslok og ætla að koma mér í stand hérna heima,“ sagði Eggert.

Líklega úr leik í tvo mánuði

„Ég þarf sennilega að fara í aðgerð. Ég er búinn að vera í sjúkraþjálfun það lengi án þess að verða alveg nógu góður. Það eru svona 80% líkur á að ég fari í aðgerð fljótlega hérna heima. Það ætti svo að taka svona 2 mánuði fyrir mig eftir hana að komast á fullt aftur,“ bætti hann við.

Eggert á 19 A-landsleiki að baki. Hann lék meðal annars 3 leiki í síðustu undankeppni HM, þar sem Ísland komst alla leið í umspilið. Hann fór 16 ára gamall í atvinnumennsku til Hearts í Skotlandi þar sem hann lék í sjö ár, til ársins 2012, og var um tíma fyrirliði. Þaðan fór hann til Wolves í Englandi en spilaði sáralítið fyrir félagið áður en honum var svo leyft að fara til Portúgals í fyrra. Eggert mun halda áfram í atvinnumennsku eftir að hann jafnar sig af meiðslunum, en hvar það verður er algjörlega óvíst og Eggert kveðst lítið vera með hugann við það hvert hann haldi næst.

„Auðvitað liggur mér á að komast aftur í fótbolta en ég get ekki verið að standa í því eins og ég er núna. Ég gæti kannski hjakkast eitthvað á þessu núna en það gengur ekkert til lengdar,“ sagði Eggert.

Ekki vandamál að finna félag

„Fyrst að ég náði að semja um starfslok er ég laus allra mála og get samið við nýtt félag þegar ég vil, burtséð frá félagaskiptaglugga. Það voru lið að spyrjast fyrir um mig þegar ég var enn með samning hjá Belenenses en ég var ekkert að hugsa um slíkt heldur bara að jafna mig af meiðslunum. Það ætti ekki að verða mikið vandamál að finna félag þegar ég kemst af stað aftur en ég er lítið að hugsa um það núna. Mig langar bara að komast í gang aftur,“ sagði Eggert, og viðurkennir að það sé vissulega ekki skemmtilegt að hafa spilað eins lítið af leikjum og raun ber vitni síðustu ár.

„Það er orðið langt síðan að ég náði að æfa fótbolta af fullum krafti. Ég fór í gegnum allt síðasta tímabil án þess að losna alveg við þessi nárameiðsli. Auðvitað saknar maður þess að vera að spila reglulega. Ég náði að spila nokkra leiki í röð þegar ég var sem bestur af meiðslunum, í byrjun ársins, en núna er ég staðráðinn í að koma mér í stand aftur og einbeiti mér alfarið að því.“

Eggert Gunnþór Jónsson
» Eggert Gunnþór Jónsson er 26 ára gamall Eskfirðingur sem hóf atvinnumannsferil sinn 16 ára gamall þegar hann gekk í raðir Hearts í Skotlandi.
» Eggert hefur leikið með Hearts, Wolves og Charlton á Englandi og síðast með Belenenses í Portúgal en er nú laus allra mála og leitar að nýju liði.