Neyðarhjálp Jasídar taka við vatnsflöskum í flóttamannabúðum.
Neyðarhjálp Jasídar taka við vatnsflöskum í flóttamannabúðum. — AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að hafnar hefðu verið aðgerðir til að bjarga þúsundum sveltandi flóttamanna sem hefðu hafst við á fjalli í Norður-Írak síðustu daga, umkringdir vígasveitum íslamista.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að hafnar hefðu verið aðgerðir til að bjarga þúsundum sveltandi flóttamanna sem hefðu hafst við á fjalli í Norður-Írak síðustu daga, umkringdir vígasveitum íslamista.

Cameron vildi ekki veita frekari upplýsingar um aðgerðirnar en sagði að Bretar myndu taka þátt í þeim, ásamt Bandaríkjamönnum.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna sögðu að talið væri að um 20.000 til 30.000 flóttamenn væru enn á Sinjar-fjalli í Norður-Írak eftir að hafa flúið heimkynni sín vegna árása vígasveita Ríkis íslams, samtaka sem hafa lýst yfir stofnun kalífadæmis á yfirráðasvæðum sínum í Írak og Sýrlandi. Flestir flóttamannanna eru úr röðum jasída, sem íslamistarnir hafa ofsótt og sakað um að vera djöfladýrkendur.

Rita Izsak, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í málefnum minnihlutahópa, sagði að flóttamennirnir stæðu frammi fyrir fjöldamorðum og „hugsanlega þjóðarmorði“ ef þeim yrði ekki komið til hjálpar tafarlaust.

Þúsundir annarra flóttamanna fóru í gær inn á sjálfstjórnarsvæði Kúrda eftir að hafa flúið yfir landamærin til Sýrlands vegna árása íslamistanna. Á meðal þeirra voru konur sem héldu á örmagna börnum.

Einn flóttamannanna kvartaði yfir slæmum aðbúnaði í búðum þeirra á sjálfstjórnarsvæði Kúrda. „Við lifðum af tíu daga umsátur í fjöllunum. Öll heimsbyggðin talar um okkur en við fengum enga hjálp,“ sagði hann.

Frakkar senda vopn

Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að 130 hernaðarráðgjafar hefðu verið sendir á sjálfstjórnarsvæðið til að meta þörfina á neyðaraðstoð við flóttafólk í Norður-Írak. Bandaríkjaher hefur varpað niður hjálpargögnum til flóttafólksins á Sinjar-fjalli en ráðgjafarnir eiga að meta hvað fleira þurfi að gera til að koma fólkinu til hjálpar.

Bandaríkjaher hefur hafið flutninga á vopnum til að efla hersveitir Kúrda í baráttunni við íslamistana. Stjórnvöld í Frakklandi tilkynntu í gær að þau hygðust einnig sjá kúrdísku hersveitunum fyrir vopnum. bogi@mbl.is