Skúli segir ferlana mjög skilvirka. Afli sem kemur að landi að morgni getur verið kominn í kæliborðin í evrópskum mörkuðum að morgni næsta dags.
Skúli segir ferlana mjög skilvirka. Afli sem kemur að landi að morgni getur verið kominn í kæliborðin í evrópskum mörkuðum að morgni næsta dags. — Morgunblaðið/Ómar
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Framkvæmdastjóri Bluebird Cargo segir góðar fragtflugsleiðir í boði á markaði í Mið-Austurlöndum og Asíu, ef íslenskir fiskframleiðendur finna þar kaupendur. Flutningar á fiski með flugi til Bandaríkjanna hafa aukist en óvíst með þróunina í Evrópu á næstu misserum.

Útflutningur á ferskum fiski skipar stóran sess í starfsemi Bluebird Cargo. Má reikna með að fragtflugfélagið flytji daglega á bilinu 12-13 tonn af sjávarafurðum til Evrópu, samtals 250 ferðir á ári sem gerir þá í kringum 3.250 tonn yfir árið.

Skúli Skúlason framkvæmdastjóri segir að undanfarin ár hafi verið stöðugleiki í flutningum á fiskafurðum með flugi en getan sé til staðar að flytja meira, og víðar um heim.

Bluebird var stofnað árið 1999 og fór fyrsta vél félagsins í loftið árið 2001. Annast flugfélagið bæði almennan fraktflutning til og frá Íslandi og Evrópu og á einnig í nánu samstarfi við hraðsendingafyrirtæki um flutning á hraðsendingum og frakt.

„Við fundum fljótlega okkar syllu í þjónustu við hraðsendingafyrirtækin í Evrópu og náðum fótfestu á markaðinum í krafti þess að nota yngri gerð af flugvélum sem mættu betur kröfum nútímans um sparneytni, loftmengun og hljóðmengun,“ segir Skúli og bætir við að þegar mest lét var Bluebird með sjö flugvélar í rekstri.

Samstillt kerfi

Í dag eru vélarnar fimm, þar af ein sem flýgur á milli Íslands og Dyflinnar og áfram til Liége í Belgíu. Hinar vélarnar eru á flutningaleiðum innan meginlands Evrópu. Flutningakerfið er mjög vandlega samstillt og fiskur sem lendir á Írlandi, Þýskaland og í Belgíu er óðara kominn um borð í flutningabíla eða í aðrar vélar samstarfaðila Bluebird, á leið til seljenda hér og þar um álfuna.

Bluebird dró úr þjónustu til Bandaríkjanna 2001-2, m.a. vegna þess að þar minnkaði eftirspurn eftir ferskum fiski mikið saman þegar innlend framleiðsla tók við sér. „Mikilvæg veiðisvæði bæði við Bandaríkin og Kanada höfðu lengi verið lokuð, en með opnun þessara miða breyttist landslag fiskverslunar á svæðinu og minni þörf varð fyrir innflutning. Um leið gerðist það að Bandaríkjadalur tók að veikjast gagnvart gjaldmiðlum á borð við evru og pund og rýrði það enn frekar fýsileika þess að selja íslenskan fisk á mörkuðum vestanhafs,“ segir Skúli. „Síðastliðin ár hefur eftirspurn eftir ferskum fiski aukist á ný í Bandaríkjunum og hefur Bluebird boðið upp á flutning þangað í gegnum Dublin í samstarfi við Aer Lingus með góðum árangri.“

Magnið jókst í kreppunni

Ferskur fiskur, fluttur með flugi um langa leið, er lúxusvara. Hefði þess vegna mátt reikna með að þegar efnahagskreppan reið yfir hinn vestræna heim myndi markaðurinn fyrir íslenskan fisk með flugi fara minnkandi. Skúli segir ekkert slíkt hafa gerst. „Ef eitthvað er varð aukning í flutningum á ferskum fiski, væntanlega vegna veikingar krónunnar.“

Býst Skúli frekar við að sveiflur geti orðið á evrópska markaðinum ef framhald verður á togstreitunni sem myndast hefur milli Rússa og ESB-ríkjanna. Gæti það sett íslenskar fiskafurðir í slæma stöðu ef norskt sjávarfang sem áður fór á Rússlandsmarkað tekur í staðinn stefnuna í fiskborð evrópskra stórmarkaða.

Hægt að fara lengra út í heim

En kannski að breyttar aðstæður á evrópska fisksölusvæðinu hvetji íslenska seljendur til að leita enn lengra. Segir Skúli að íslenskur sjávarútvegur sé ekki að nýta margar þær góðu flutningaleiðir sem fragtflug býður upp á til fjarlægra áfangastaða. Sé áhugi til staðar og hægt að finna kaupanda að fiskafurðum, eru markaðir í Mið-Austurlöndum og Asíu aðgengilegir með flugi. „Ef framleiðendurnir hafa bolmagnið til þess geta þeir stækkað markaðssvæðið fyrir ferskan íslenskan fisk svo um munar.“

Þarf jafnvægi milli inn- og útflutnings

Vöruflutningar með flugi eru mikil jafnvægislist. Verða flutningarnir á ferskum fiski alveg sérstaklega að ganga fyrir sig eins og vandlega smurð vél enda seljendur í kapphlaupi við tímann.

Segir Skúli að framleiðendur hafi lært að Bluebird þarf að fylgja strangri tímaáætlun og eru framleiðslu- og dreifingarferlar í dag orðnir svo vandaðir og skilvirkir að afli sem kemur að landi að morgni til getur verið kominn um borð í vél síðdegis og í kæliborð í evrópskum stórmörkuðum að morgni næsta dags.

Hluti af jafnvægislistinni er líka að nýta flutningagetu vélanna báðar leiðir. Segir Skúli að þar vandist málin, því þegar mest er að gera í útflutningi vill innflutningurinn dragast saman og öfugt. „Innflutningur með flugi minnkaði hratt með hruninu í takt við minni einkaneyslu á meðan útflutningur sótti í sig veðrið.“