14. ágúst 1784 Suðurlandsskjálftar. Miklir landskjálftar urðu þennan dag og tveimur dögum síðar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hundrað bæir hrundu til grunna, margt fólk var grafið upp úr rústunum og þrír týndu lífi.

14. ágúst 1784

Suðurlandsskjálftar. Miklir landskjálftar urðu þennan dag og tveimur dögum síðar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hundrað bæir hrundu til grunna, margt fólk var grafið upp úr rústunum og þrír týndu lífi. Þetta eru taldir mestu jarðskjálftar hér á landi, sá stærsti hefur verið áætlaður 7,5 stig. Flest hús í Skálholti skemmdust og í kjölfarið voru skóli og biskupsstóll fluttir til Reykjavíkur.

14. ágúst 1874

Englendingurinn W.L. Watts og þrír Íslendingar komu úr fjögurra daga leiðangri af Vatnajökli. Þar könnuðu þeir eldstöðvar og gáfu fjöllum nöfn, m.a. Pálsfjalli. Ári síðar fór Watts yfir jökulinn.

14. ágúst 1920

Sveinn Björnsson, 39 ára forstjóri Brunabótafélags Íslands, var skipaður fyrsti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Hann varð síðar forseti Íslands.

14. ágúst 1942

Bandarískar herflugvélar skutu niður þýska sprengjuflugvél sem stefndi til Reykjavíkur. Þetta var fyrsta óvinaflugvélin sem bandarískir hermenn skutu niður yfir Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni.

14. ágúst 2000

Rafmagnslaust var í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í hálfa klukkustund vegna skemmdarverks á rafmagnstöflu. Útsendingar útvarps og sjónvarps féllu niður vegna þess að vararafstöð fór ekki í gang.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson