Páll Fannar Einarsson
pfe@mbl.is
Hólahátíð verður haldin á Hólum í Hjaltadal um helgina og hefst dagskráin á morgun með pílagrímagöngu frá Gröf á Höfðaströnd. Lagt verður af stað klukkan 10 og verður helgistund í Hóladómkirkju að göngu lokinni. Um kvöldið verður erindi flutt í tilefni af 50 ára afmæli Hólafélagsins í Auðunarstofu og mun sr. Gísli Gunnarsson, sókarprestur í Glaumbæ, flytja erindið. „Það er áratugagömul hefð að halda Hólahátíð. Hátíðin í ár er helguð 400 ára afmæli Hallgríms Péturssonar en þetta er bæði kirkjuleg hátíð fyrir Hólastiftið ásamt því að vera héraðshátíð fyrir Skagafjörð,“ segir Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup Hólastiftis.
Á laugardeginum hefst dagskrá á ratleik klukkan 10 þar sem barnaljóð Hallgríms Péturssonar verða lögð í Geo kassana á Hólum. Klukkan 11 mun Steinunn Jóhannesdóttir flytja erindi í Hóladómkirkju og eftir hádegisverð á veitingastaðnum Undir Byrðunni taka leiklestur og útitónleikar við. Dagskráin endar á grilli um kvöldið.
Vonast eftir góðu veðri
Dagskráin hefst snemma klukkan 10 á sunnudeginum á því að börnum verður boðið að fara á hestbak. Messa verður svo haldin klukkan 14 í Hóladómkirkju og að henni lokinni verður veislukaffi í Hólaskóla. Dagskráin endar svo klukkan 16.30 á samkomu í Hóladómkirkju. „Það hefur alltaf mætt til okkar töluverður fjöldi á Hólahátíð og við vonum að á því verði engin breyting í ár. Ég er mjög bjartsýn á góða stemningu og vonandi verður veðrið gott eins og venja er á Hólahátíð,“ segir Solveig.Nánari útlistun á dagskrá má finna á vefslóðinni www.kirkjan.is/holadomkirkja.