Marinó og Herdís hjá Gracipe. Hann segir myndræna framsetningu hafa marga kosti fram yfir hefðbundnu rituðu uppskriftirnar sem allir þekkja. Auðveldara sé að skilja tákn en texta.
Marinó og Herdís hjá Gracipe. Hann segir myndræna framsetningu hafa marga kosti fram yfir hefðbundnu rituðu uppskriftirnar sem allir þekkja. Auðveldara sé að skilja tákn en texta. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Fyrirtækið Gracipe hyggst breyta því hvernig uppskriftir eru settar fram. Í stað flókins texta koma skýrar og auðskiljanlegar myndir. Hugmyndin kviknaði upp úr skólaverkefni í Hollandi.

Mataruppskriftir hafa verið settar fram með svipuðum hætti allt síðan mannskepnan fór að skrásetja hina ýmsu rétti. Á tímum gervihnatta og ofurtölva eru uppskriftir enn settar fram á keimlíkan hátt og í elstu þekktu uppskriftabókum. Það eina sem hefur breyst er að uppskriftirnar eru í dag myndskreyttar með fallegum litljósmyndum af safaríkum steikum og óaðfinnanlegum kökum.

Marinó Páll Valdimarsson og félagar hjá Gracipe (www.gracipe.com) vilja færa uppskriftirnar inn í nútímann.

Gracipe (borið fram „gra-si-pí“) er nýyrði sett saman úr orðunum „graphical“ og „recipe“ og lýsir nokkuð vel hverju þetta unga sprotafyrirtæki stefnir að: að setja uppskriftir fram með grafískum táknum frekar en texta.

Auk Marinós standa að baki fyrirtækinu þau Kai Köhn, Herdís Helga Arnalds og Shumeng Chang. Gracipe gerir út frá frumkvöðlasetrinu Innovation House á Eiðistorgi.

„Hugmyndin kviknaði hjá okkur Kai þar sem við vorum báðir í meistaranámi í verkfræði með áherslu á rekstur tæknifyrirtækja, úti í Hollandi. Varð Gracipe fyrst til sem skólaverkefni en við ákváðum fljótlega að fara lengra með hugdettuna og búa til alvörufyrirtæki.“

Þær Herdís og Shumeng gengu svo til liðs við Gracipe en þær eru vel að sér á sviði rekstrar annars vegar og grafískrar hönnunar hinsvegar, auk þess að vera kærustur Marinós og Kai.

Mynd betri en þúsund orð?

Það sem Gracipe gerir er að í stað orða sem gefa fyrirmæli um tiltekin hráefni, í tilteknu magni, skorin, sneidd, hrærð eða blönduð, koma myndræn tákn. Orðinu „hveiti“ er þá skipt út fyrir mynd af hveitipoka, mynd af desilítramáli getur sýnt magnið, og eitt tákn til viðbótar hvort á að hræra saman með sleif eða hrærivél.

Marinó segir manneskjunni eðlislægara að lesa tákn frekar en tölur og stafi. Skrifaðar uppskriftir geti orðið flóknar og þungar og krefjast mikillar einbeitingar. „Það er tímafrekt að lesa í gegnum uppskriftina, vandasamt að fá heildarmynd af því hvaða hráefni og áhöld þarf í verkið, og auðvelt að týnast í textanum þegar hafist er handa við eldamennskuna.“

Hugbúnaður Gracipe er hugsaður fyrir bæði vefsíður og snjalltæki. Hvaða notandi sem er getur notað þægilegt stjórnborð til að snara skrifuðum uppskriftum yfir á tákn-form, eða búið til uppskrift frá grunni með táknum eingöngu. Uppskriftin er svo geymd í gagnagrunni Gracipe en notandinn getur einnig tengt uppskriftina inn á aðrar vefsíður rétt eins og hægt er að deila YouTube myndböndum eða hnyttnum skilaboðum frá Twitter hvar sem er á vefnum.

Uppskriftin er þannig orðin mun auðlæsilegri og skiljanlegri , þvert á alla tungumálamúra. „Myndrænar uppskriftir eru líka mun þægilegri aflestrar á snjalltækjum og fartölvum, sem eru óðara að koma í stað uppskriftabókanna í eldhúsi nútímamannsins.“

Má ekki misskiljast

Er Gracipe komið nokkuð vel á veg og standa notendaprófanir núna yfir með um 400 þátttakendum. Bakendaforritunin er nokkuð flókin, en enn flóknari er hönnunin á táknunum og niðurröðun þeirra sem þarf að vera þannig úr garði gerð að allir skilji uppskriftirnar rétt, og á sama hátt. „Við erum að færa uppskriftir í glænýtt form og það má ekki vera of erfitt fyrir fólk að skilja og tileinka sér þessa nýju framsetningu. Táknin og niðuröðun þeirra verður að vera auðskiljanleg og skýr svo engin hætta sé á ruglingi við matseldina.“

Tekjumódelið er mjög áhugavert og nýtir Gracipe sér kosti myndrænnar framsetningar til fullnustu til virðisauka fyrir notendur jafnt sem auglýsendur. Þar sem uppskriftirnar eru geymdar miðlægt getur Gracipe selt smekklegar og fyrirferðarlitlar „vörukynningar“ inni í uppskriftunum.

„Myndi það vera með þeim hætti að í stað almenns tákns fyrir „hveitipoka“ kæmi mynd af Kornax- eða Pillsbury-hveitipoka. Í stað almennrar og ómerktrar tómatsósuflösku gæti komið mynd af Heinz- eða Libby's-flösku. Sá sem matreiðir er þá með vöruna og vörumerkið fyrir augunum og þegar hann kaupir í matinn eftir uppskriftinni er hann líklegri til að velja þessar auglýstu vörutegundir umfram aðrar. Þessi auglýsingaðferð felur í sér minna áreiti fyrir notandann og meiri árangur fyrir auglýsandann.“

Samfélagsvefur í fæðingu?

Marinó sér svo fyrir sér að Gracipe gæti orðið eitthvað enn stærra en myndræn framsetning uppskrifta. „Við höfum komið auga á að á netinu er vöntun á góðum samfélagsvef á matarsviðinu. Tölurnar sýna að matur og uppskriftir er það efni sem fólk er hvað duglegast að deila á síðum eins og Facebook, Instagram og Pinterest en það er enginn einn staður á netinu sem hefur náð að gera þessa hlið netsins almennilega að sinni,“ útskýrir hann. „Þegar Gracipe er orðið að miðlægum grunni fyrir alls kyns uppskriftir er ekki erfitt að stíga næsta skref og bæta við eiginleikum samfélagsmiðils og upplýsingaveitu. Forritarar eiga vefsíður eins og Stackoverflow.com þar sem finna má á augabragði aðstoð og leiðbeiningar til að leysa ýmis forritunarvandamál. Gæti t.d. hluti Gracipe-vefsins orðið eins konar StackOverflow fyrir þá sem hafa gaman af að elda.“

Marinó efast ekki eitt augnablik um að markaðurinn sé fýsilegur, og þó að heimur uppskrifta og matreiðslubóka láti ekki mikið yfir sér eru þar stórar fjárhæðir í spilinu. „Taka má sem dæmi að uppskriftavefurinn Allrecipes.com var ekki alls fyrir löngu seldur fyrir jafnvirði 21 milljarðs króna. Annar matreiðsluvefur, Yummly.com, tryggði sér nýlega sprotafjármögnun upp á jafnvirði u.þ.b. 800 milljóna króna.“