Sprengjuregn Íbúar bæjar nálægt Donetsk í íbúðum sem skemmdust í sprengjuárás. Átök geisa þar milli Úkraínuhers og uppreisnarmanna.
Sprengjuregn Íbúar bæjar nálægt Donetsk í íbúðum sem skemmdust í sprengjuárás. Átök geisa þar milli Úkraínuhers og uppreisnarmanna. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Úkraínumenn og stjórnvöld á Vesturlöndum hafa látið í ljósi áhyggjur af því að Rússar noti ef til vill neyðarástandið vegna átakanna í Austur-Úkraínu sem átyllu til að gera innrás í landið.

Fréttaskýring

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Úkraínumenn og stjórnvöld á Vesturlöndum hafa látið í ljósi áhyggjur af því að Rússar noti ef til vill neyðarástandið vegna átakanna í Austur-Úkraínu sem átyllu til að gera innrás í landið. Hermálasérfræðingar í Moskvu telja það þó ólíklegan möguleika en spá langvinnum átökum milli stjórnarhers Úkraínu og uppreisnarmanna sem njóta stuðnings ráðamannanna í Kreml.

Uppreisnarmennirnir í austanverðri Úkraínu hafa átt undir högg að sækja og hörfað til höfuðvígja sinna í borgunum Donetsk og Lúgansk. Stjórnherinn er sagður vera nálægt því að króa uppreisnarmennina af.

Stjórnvöld á Vesturlöndum óttast að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sem hefur stutt uppreisnarmennina, komi þeim til hjálpar og sendi hersveitir yfir landamærin. Embættismenn Atlantshafsbandalagsins telja að stjórn Pútíns hafi sent a.m.k. 20.000 hermenn að landamærunum að Úkraínu.

Vaxandi neyð

Vestrænu ráðamennirnir hafa á bak við tjöldin hvatt Petro Porosénkó, forseta Úkraínu, til að reyna að semja um frið við uppreisnarmennina, frekar en að reyna að gersigra þá með hernaði, að sögn breska dagblaðsins The Daily Telegraph . Þeir óttast að hernaðurinn leiði til enn meira mannfalls og Rússar noti það sem átyllu til að senda hersveitir til Austur-Úkraínu.

Breska blaðið hefur eftir vestrænum embættismanni að þeim fari fjölgandi meðal samstarfsmanna Porosénkós sem geri sér grein fyrir því að ekki sé hægt að leysa deiluna um Austur-Úkraínu með hernaði. Afstaða forsetans sé hins vegar enn óljós. Hermt er að hann hafi lofað því að sigra uppreisnarmennina fyrir 24. ágúst, sjálfstæðisdag Úkraínu.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna segja að nær 117.000 skráðir flóttamenn séu nú í Úkraínu og um 87% þeirra séu frá austanverðu landinu. Yfir 168.000 Úkraínumenn hafa flúið yfir landamærin til Rússlands, að sögn embættismanna SÞ, en Rússar segja að flóttamennirnir séu fleiri. Hermt er að 2.086 manns hafi látið lífið í átökunum.

Flóttafólk í grennd við Lúgansk segir að íbúar borgarinnar og nálægra þorpa hafi neyðst til að grafa lík í húsagörðum vegna þess að of hættulegt sé að vera á ferli á götunum. Fólkið hírist dögum saman í kjöllurum vegna sprengjuárása. Sumir íbúanna hafa verið án rennandi vatns og rafmagns í nokkrar vikur, margir eru að verða uppiskroppa með matvæli og símasambandslaust er víða á svæðinu. Loka hefur þurft verslunum og bönkum og eldsneyti fyrir bíla og rafala er af skornum skammti, að sögn The Daily Telegraph .

Sagðir undirbúa friðargæslu

Fjölmiðlar í Rússlandi sögðu í júlí að ráðamennirnir í Kreml væru að undirbúa þann möguleika að senda „friðargæslulið“ til Austur-Úkraínu vegna neyðarástandsins og höfðu það eftir stjórnarerindrekum í Moskvu. Þetta kynti undir áhyggjum Úkraínumanna af hugsanlegri hernaðaríhlutun Rússa sem eru núna með hersveitir í uppreisnarhéruðunum Transnistríu í Moldóvu og Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu.

Rússar sendu hermenn til friðargæslu í Transnistríu í Moldóvu vegna stríðs á árunum 1991-1992 eftir að héraðið lýsti yfir sjálfstæði. Meirihluti íbúa Transnistríu hefur rússnesku að móðurmáli, eins og margir íbúar Austur-Úkraínu.

Rússland og Georgía háðu skammvinnt stríð í ágúst 2008 vegna deilu um Abkasíu og Suður-Ossetíu sem lýstu yfir sjálfstæði með stuðningi stjórnvalda í Kreml. Rússar höfðu þá árum saman vopnað og þjálfað sveitir rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í héruðunum. Auk Rússlands hafa aðeins fjögur ríki – Níkaragva, Venesúela og Kyrrahafseyjarnar Nauru og Tuvalu – viðurkennt sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu. Önnur lönd líta á héruðin sem hernumin svæði.

Gætu barist árum saman

Rússneskir hermálasérfræðingar telja ólíklegt að bílalest með hjálpargögn, sem Rússar sendu til Austur-Úkraínu, sé einhvers konar „trójuhestur“ eða undanfari hernaðaríhlutunar, að sögn The Moscow Times . Blaðið er gefið út á ensku í Moskvu og hefur birt margar greinar þar sem stjórn Pútíns er gagnrýnd.

The Moscow Times hefur eftir sérfræðingunum að takmörkuð friðargæsla eins og í Transnistríu eða Suður-Ossetíu myndi ekki hafa mikla hernaðarlega þýðingu í Austur-Úkraínu. Hermálasérfræðingarnir segja að fámennt friðargæslulið eins og í uppreisnarhéruðunum hefði enga möguleika á að sigra her Úkraínu sem áætlað er að sé með um 50.000 menn undir vopnum. Þar að auki geti Rússar ekki sent friðargæslulið nema öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki það og engar líkur séu á að það gerist vegna andstöðu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Einn sérfræðinganna, Mikhail Barabanov, ritstjóri varnarmálaritsins Moscow Defense Brief , telur að aðeins stórfelld innrás geti orðið uppreisnarmönnunum að gagni. Annar hermálasérfræðingur, Konstantin Makienko, segir að Kremlverjar hafi sent 20.000 til 40.000 hermenn að landamærunum að Úkraínu en geti fjölgað þeim í 80.000. Barabonov og Makienko telja að það myndi duga til að sigra her Úkraínu en The Moscow Times hefur eftir þriðja sérfræðingnum, Alexander Golts, að til þess þyrftu Rússar að senda 100.000 hermenn en það sé ekki mögulegt eins og staðan er nú.

Rússnesku hermálasérfræðingarnir segja að NATO myndi örugglega koma Úkraínu til hjálpar, að minnsta kosti með því að senda her landsins vopn. Rússland myndi einnig einangrast algerlega á alþjóðavettvangi ef rússneski herinn ræðst inn í Úkraínu.

Sérfræðingarnir telja líklegra að uppreisnarmennirnir hefji skæruhernað ef Úkraínuher nær Donetsk og Lúgansk á sitt vald. Þeir segja að nánast ógjörningur verði fyrir herinn að binda enda á skæruhernaðinn og spá því að átökin geisi langt fram eftir vetri, jafnvel í mörg ár, að sögn The Moscow Times .

Sættir sig ekki við innlimunina

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í viðtali sem birt var í gær að hún myndi aldrei sætta sig við þá ákvörðun þingsins í Moskvu í mars sl. að innlima Krímskaga í Rússland.

„Ef slík innlimun, sem er brot á þjóðarétti, yrði að pólitísku tæki sem menn sættu sig við án mótspyrnu, þá stefnir það í hættu öllu því sem hefur gert okkur kleift að lifa við frið og hagsæld í hálfa öld,“ sagði Merkel í viðtali við þýska dagblaðið Sächsische Zeitung. „Þess vegna sættum við okkur ekki við aðgerðir Rússa.“

Segjast ætla að stöðva bílalestina

• Rússar segja hana engan „trójuhest“ Nær 300 rússneskir flutningabílar nálguðust í gær landamærin að Úkraínu en þarlend stjórnvöld sögðust ætla að stöðva bílalestina af ótta við að hún væri „trójuhestur“, með vopn eða hermenn til að undirbúa hernaðaríhlutun í austanverðu landinu.

Stjórnvöld í Rússlandi sögðu að bílalestin flytti um 1.800 tonn af hjálpargögnum, meðal annars matvælum, lyfjum og lækningatækjum, svefnpokum fyrir flóttafólk og rafölum.

Ríkisstjórn Úkraínu sagði að bílalestin yrði stöðvuð og affermd við landamærin. Hjálpargögnin yrðu síðan flutt í öðrum bílum inn á átakasvæðin í austanverðu landinu með aðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins.

Hafa ekki kannað farminn

Rússar neita því að hermenn fylgi bílalestinni og segjast hafa skipulagt flutningana á hjálpargögnunum í samstarfi við Alþjóðaráð Rauða krossins. Fréttaveitan AFP segir hins vegar að ráðið neiti þessu og starfsmenn þess hafi ekki getað kannað farm bílalestarinnar.

„Mannhatur Rússanna á sér engin takmörk,“ sagði Arsení Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu, um bílalestina. „Fyrst senda þeir skriðdreka, Grad-flaugar, hryðjuverkamenn og stigamenn til að skjóta Úkraínumenn og núna koma þeir með vatn og salt. Það væri betra að Rússar sendu 300 tóma flutningabíla til að sækja stigamennina sína. Þá væri engin þörf á að senda hjálpargögn.“

Yfir 2.000 fallnir
» Að minnsta kosti 2.086 manns hafa látið lífið í átökunum í austanverðri Úkraínu síðustu fjóra mánuði, þar af minnst 20 börn, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna í gær.
» Um 285.000 manns hafa flúið heimkynni sín vegna átakanna, þar af hafa 168.000 flúið yfir landamærin til Rússlands.