Frábær Þjóðverjinn Robert Harting fagnaði innilega Evrópumeistaratitlinum í kringlukasti í Zürich í gærkvöld.
Frábær Þjóðverjinn Robert Harting fagnaði innilega Evrópumeistaratitlinum í kringlukasti í Zürich í gærkvöld. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM í frjálsum Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.is Breski hlauparinn, Mo Farah undirstrikaði yfirburði sína endanlega í gærkvöld í 10.

EM í frjálsum

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

Breski hlauparinn, Mo Farah undirstrikaði yfirburði sína endanlega í gærkvöld í 10.000 metra hlaupi þegar hann bætti Evrópumeistaratitlinum við í safnið þegar hann kom fyrstur í mark á EM í frjálsíþróttum í Zürich á 28:08,11 mínútum. Fyrir á Farah í safninu heimsmeistaratitil í greininni frá því á HM í Moskvu í fyrra og Ólympíumeistaratitil sem hann vann á heimavelli í London 2012.

„Mig langaði svo mikið að hlaupa á Samveldisleikunum í síðasta mánuði en gat það ekki vegna meiðsla, þannig að þessi sigur hérna á EM hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir mig. Mér þykir hins vegar leitt að hafa brugðist þeim sem keyptu miða til að sjá mig á Samveldisleikunum. Mér líður eins og ég hafi svikið marga með því að missa af þeim. En ég þakka öllum sem studdu mig í kvöld, bæði áhorfendum og ekki síst fjölskyldu minni,“ sagði Farah við BBC í gær.

Bolt í stuðningsliði Farah

Farah sem fæddist í Sómalíu fyrir 30 árum, flúði með fjölskyldu sinni til London þegar hann var átta ár og hefur haft enskt ríkisfang í um 20 ár. Hann hefur verið einn vinsælasti íþróttamaður Bretlands síðustu ár og er nýtur líka mikilla vinsælda meðal annarra frjálsíþróttamanna. Jamaíkumaðurinn Usain Bolt var til að mynda staddur á vellinum í Zürich í gærkvöld sem áhorfandi og var einn þeirra fyrstu sem ruku til Farah til að fagna honum og Evrópumeistaratitlinum. Farah á eftir að keppa í 5.000 metra hlaupi á EM, en hann er líka ríkjandi heims- og Ólympíumeistari í þeirri grein.

Gleðipinninn Harting

En það var ekki bara Farah sem undirstrikaði yfirburði sína í gærkvöld, heldur gerði hinn litríki Þjóðverji, Robert Harting hið sama í kringlukastinu þegar hann varð Evrópumeistari í annað sinn í röð. Harting er jafnframt ríkjandi Ólympíumeistari í kringlukasti og þrefaldur heimsmeistari í greininni. Lengsta kast Harting í gær var 66,07 metrar.

Harting fagnar yfirleitt með því að rífa utan af sér keppnisgallann að ofan og hlaupa svo með þýska fánann utan um sig yfir grindurnar úr grindahlaupinu. Hann hafði þó hægara um sig en oft áður í fagnaðarlátunum í gær. Fyrst þóttist Harting ætla að rífa bolinn sinn eftir að hafa safnað saman ljósmyndurum fyrir framan sig, en endaði á því að klæða sig bara úr honum í stað þess að eyðileggja bolinn.

Harting er þekktur fyrir að fagna sigrum sínum vel. Eftir að hann varð Ólympíumeistari í London fagnaði hann helst til of mikið. Í það minnsta týndi hann aðgangskorti sínu að Ólympíuþorpinu og endaði því á því að gista á lestarstöð nóttina eftir Ólympíusigurinn.

Þrenn gullverðlaun Breta í gær

Sjö íþróttamenn til viðbótar voru krýndir Evrópumeistarar í Zürich í gær. Spánverjinn Miguel Ángel Lopez sigraði í 20 kílómetra göngu karla á 1:19:44 klst.

Hollendingurinn Dafne Schippers varð Evrópumeistari í 100 metra hlaupi kvenna. Hún hljóp á 11,12 sekúndum og í það var svo Bretinn James Dasaoulu sem varð Evrópumeistari karla í sömu grein. Hann hljóp á 10,06 sekúndum.

Dagurinn var ansi góður hjá Bretum, því Tiffany Porter vann svo 100 metra grindahlaup kvenna, en sigurtími hennar var 12,76 sekúndur.

Verðandi andstæðingur Íslands

Éloyse Lesueur frá Frakklandi vann svo langstökkskeppni kvenna með lengsta stökk upp á 6,85 metra. Önnur varð Ivana Spanovic frá Króatíu sem stökk 6,81 metra, en Hafdís Sigurðardóttir sem komst ekki í úrslit langstökksins fær þó líklega að reyna sig við Spanovic í 2. deild Evrópumóts landsliða í frjálsíþróttum næsta sumar því Ísland verður meðal annars með Króatíum í deild.

Hvítrússinn Andrei Krauchanka varð svo Evrópumeistari í tugþraut. Hann náði sér í 8.616 stig sem er besti árangur nokkurs manns í tugþraut það sem af er ári.

Íslendingar á EM í dag
» Hafdís Sigurðardóttir keppir kl. 9.18 í undanrásum 200 metra hlaups.
» Aníta Hinriksdóttir keppir í undanúrslitum í 800 metra hlaupi klukkan 16.38.
» Guðmundur Sverrisson keppir í forkeppni spjótkasts klukkan 16.45.