Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Hraun í Öxnadal er líklega að öðrum ólöstuðum ein þekktasta jörð á landinu. Þar fæddist listaskáldið góða Jónas Hallgrímsson og einnig þykir þar einstök náttúrufegurð, með Hraundranga og Drangafjall í baksviði. Nýlega kom út bók um Hraun í Öxnadal eftir dr. Bjarna E. Guðleifsson, prófessor emeritus, sem lengi starfaði við rannsóknir í landbúnaði. Í bók Bjarna er fjallað um umhverfi, lífríki, sögu og náttúru staðarins og þar er einnig greint frá 18 gönguleiðum á svæðinu. „Þegar ég gekk fyrst um þetta svæði, þá hreifst ég af því. Ég tel Drangatind fallegasta tind á landinu og svo heillar tengingin við Jónas Hallgrímsson. Fegurðin dró mig að staðnum; bæði landslagið og fegurðin í ljóðum Jónasar,“ segir Bjarni.
Sjálfur hefur Bjarni klifið Drangatind, sem virðist býsna hvass að sjá af sléttlendi. „Tindurinn virðist mjög mjór, þegar ég spurði menn sem þangað höfðu farið hversu mikið pláss væri uppi á honum sögðu þeir ýmist hálfur eða fimm fermetrar,“ segir Bjarni. „Mér fannst ég verða að kanna þetta og bað vanan fjallaklifurmann, Jón Gauta Jónsson, um að taka mig með upp. Ég komst að því að þetta er ekki nema ½ fermetri ef maður stendur uppi á tindinum. En fyrir neðan hann er plata, sem er 4-5 fermetrar og þess vegna greinir menn líklega á.“
Fyrirmyndin að Hallgrímskirkju
Gönguleiðirnar sem Bjarni greinir frá í bók sinni eru mislangar en á þeim öllum er lögð áhersla á að hægt sé að njóta náttúrufegurðar. Einnig er í bókinni rakin saga jarðarinnar Hrauns, sem er landnámsjörð og var meira eða minna í byggð fram til ársins 1998. Nú er þar friðland og fólkvangur og í uppgerðu íbúðarhúsi er íbúð fyrir fræði- og listamenn og minningarstofa um Jónas Hallgrímsson.Sé að gáð gætir Hrauns í Öxnadal víða, eins og Bjarni bendir á í bókinni. Til dæmis má sjá Hraundranga í nokkrum íslenskum vöru- og fyrirtækjamerkjum og þá hafði Guðjón Samúelsson tindana í Öxnadal til hliðsjónar þegar hann teiknaði Hallgrímskirkju.
Grátittlingur í uppáhaldi
Bjarni hefur farið talsvert með ferðamenn um svæðið. „Það er afskaplega gaman að kynna þeim þessa fegurð og ekki síður að vera með Jónas í farteskinu og lesa upp úr ljóðum hans og frásögnum. Hann orti mikið um bernskuminningar sínar sem eiga margar rætur sínar í Öxnadal og Hrauni.“En hvaða ljóð Jónasar skyldi vera í uppáhaldi hjá höfundi bókarinnar um Hraun í Öxnadal? „Grátittlingurinn,“ svarar Bjarni. „Það er ein af þessum fallegu bernskuminningum Jónasar, líklega ekki eitt af þeim þekktustu, en mér þykir það ákaflega fallegt.“
Spurður hvernig hann sjái framtíð svæðisins fyrir sér segist Bjarni vonast til að þar muni lista- og fræðimenn áfram geta fengið vinnuaðstöðu. „Ég sé líka fyrir mér að sýningunni um Jónas verði komið fyrir á betri stað á jörðinni og að sem flestir komi þangað til að njóta fegurðarinnar sem þarna er.“