Meistari Diego Simeone vann spænska titilinn með Atlético.
Meistari Diego Simeone vann spænska titilinn með Atlético. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atlético Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.

Atlético

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

Þrátt fyrir að Diego Costa, Thibaut Courtois, Javier Manquillo, Felipe Luis, David Villa, Adrían og Diego Ribas séu allir horfnir á braut frá Spánarmeisturum Atlético Madríd og argentínski knattspyrnustjórinn Diego Simeone taki út átta leikja bann hefur Atlético enn ekki tapað leik á leiktíðinni.

Atlético Madríd hefur þó spilað þrjá leiki gegn Real Madríd, hafði betur gegn Real þegar keppt var um titilinn meistarar meistaranna og vann svo Real í spænsku 1. deildinni á laugardag.

Þótt Atlético hafi vissulega krækt í króatíska framherjann Mario Mandzukic og Frakkann Antoine Griezemann í sumar myndu flestir telja að leikmannahópur liðsins í fyrra hafi verið sterkari. Diego Simeone, stjóri liðsins, neitar því líka í viðtölum að Atlético muni berjast um spænska meistaratitilinn við Real og Barcelona eins og síðasta vetur, heldur muni liðið líklega heyja baráttu við Sevilla og Valencia um 3. sætið í spænsku 1. deildinni í vetur.

En Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético Madríd, virðist magnaður náungi. Hann hefur sérstakar hefðir, sem hann fer stíft eftir, og fjölskyldan er honum afar mikilvæg.

Fjölskyldan mikilvæg Simeone

Á hverju kvöldi sest Simeone við matarborðið heima hjá sér í Madríd og borðar með fjölskyldu sinni. Það merkilega við það er þó kannski að fjölskylda hans býr í Buenos Aires í Argentínu. Simeone situr þá með tölvuna sína með forritið FaceTime opið fyrir framan matardiskinn og borðar þannig með fjölskyldunni.

Hálftíma fyrir hvern leik er Diego Simeone hvergi sjáanlegur á vellinum. Þá situr hann einn inni í búningsklefa og hringir í syni sína þrjá og spjallar við þá í stutta stund áður en leikurinn hefst. Það vakti líka athygli að um leið og Atlético hafði tryggt sér Spánarmeistaratitilinn í vor fór Simeone rakleiðis inn í varamannaskýli liðsins, tók upp símann og hringdi í Giovanni Simeone, son sinn, sem hafði orðið argentínskur meistari með River Plate á sama tíma. Þetta var fyrsta mál á dagskrá hjá Diego áður en hann fór svo og fagnaði titlinum með Atlético Madríd.

Annars er Simeone vanur að rjúka beint inn í klefa eftir að leikjum lýkur, sem sumum finnst hrokafullt af honum. Í stærri leikjum er hann þó líklegri til að staldra við.

Alltaf í sömu jakkafötunum

Simeone er líka alltaf fínn í tauinu á hliðarlínunni. Hann er þó alltaf í sömu jakkafötunum, sokkunum og skónum þegar Atlético Madríd spilar í Meistaradeild Evrópu. Hann er hins vegar í öðrum fötum þegar Atlético spilar í spænsku 1. deildinni. Þá les hann líka stjörnuspár alla daga.

Mörgum finnst sjálfsagt margt hálffurðulegt við Diego Simeone, sérstaklega eftir þennan lestur, sem er langt því frá að vera tæmandi um venjur og siði Argentínumannsins. Hins vegar efast orðið fáir um hæfileika og dómgreind Diegos Simeones sem knattspyrnustjóra eftir síðasta vetur með Atlético Madríd og eftir upphafið á núverandi leiktíð.