Heimilisfólk Downton Abbey fær draumagest um jólin.
Heimilisfólk Downton Abbey fær draumagest um jólin.
Það virðist ganga betur að ná sambandi við Bretland en Efstaleiti. RÚV heyrir ekki bænir manns um að Síðasta lag fyrir fréttir verði fært aftur á sinn rétta stað.

Það virðist ganga betur að ná sambandi við Bretland en Efstaleiti. RÚV heyrir ekki bænir manns um að Síðasta lag fyrir fréttir verði fært aftur á sinn rétta stað. Handritshöfundur Downton Abbey uppfyllir hins vegar bón sem lögð var fram í þessum litla dállki fyrir einhverjum mánuðum þess efnis að George Clooney fengi að skreyta þættina með sinni fögru návist. Nú hefur semsagt verið tilkynnt að hann komi fram í jólaþætti Downton. Þetta verður örugglega besta jólagjöfin í ár.

Ef RÚV vill gleðja hlustendur sína væri ráð að planta Síðasta lagi fyrir fréttir á sinn stað, svona rétt fyrir jól. Þá væri RÚV virkilega komið í samkeppni við Downton Abbey um bestu jólagjöfina. Yfirmenn RÚV vonast örugglega til að aðdáendur Síðasta lagsins muni smátt og smátt sætta sig við breytingarnar en svo er ekki. Hér eru á ferð harðskeyttir aðdáendur sem geta ekki sætt sig við breytingar á útsendingu á laginu sínu. Sú sem þetta skrifar er hætt að heyra hádegisfréttir RÚV. Sálarlífið þolir ekki glamur-auglýsingastefin sem flutt eru rétt á undan fréttum og sleppir því alveg að hlusta. Það verður hins vegar horft á Downton.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir