Það er óneitanlega gaman að skoða nýjasta heimslista FIFA í karlaflokki sem kom út í fyrradag. Þar er Ísland í 34. sæti, þar af númer 21 í Evrópu.
Það er óneitanlega gaman að skoða nýjasta heimslista FIFA í karlaflokki sem kom út í fyrradag. Þar er Ísland í 34. sæti, þar af númer 21 í Evrópu. Ofar en nokkru sinni fyrr í sögunni, í kjölfarið á sigrinum góða gegn Tyrkjum á Laugardalsvellinum í síðustu viku.

Þetta vekur athygli víða og sænskum fjölmiðlum verður tíðrætt um þessa óvæntu stöðu Íslands, enda er annar landsliðsþjálfaranna sænskur. Og sænska liðið er sjálft aðeins tveimur sætum á undan Íslandi sem Svíarnir telja stór tíðindi út af fyrir sig.

Lars Lagerbäck sagði við Expressen að markmið hans og Heimis Hallgrímssonar fyrir tveimur árum, þegar þeir tóku við og liðið var í 131. sæti, hefði verið að koma því í kringum fimmtugasta sætið. Ánægjulegt væri að það hefði tekist.

En ég veit að Lagerbäck er ekki of upptekinn af þessari stöðu liðsins, nú þegar aðeins einn leikur af tíu er búinn af undankeppni Evrópumótsins. Hann sagði einhvern tíma þegar ég ræddi við hann um FIFA-listann að hann væri bara marktækur á tveggja ára fresti – þegar undankeppni stórmóts lyki. Það er því staðan í nóvember 2015 sem skiptir máli, þegar undankeppni og umspili fyrir EM er lokið.

Menn ættu því að gleðjast varlega yfir þessari upphefð, enda þótt hún sé skemmtilegt stundargaman. Næsta verkefni landsliðsins minnir mann nefnilega á síðustu undankeppni. Þá var byrjað á flottum sigri á Norðmönnum en síðan kom slakur leikur og tap á Kýpur. Núna er liðið á leið til Lettlands sem er í 99. sæti listans og heimamenn eru örugglega til í að sýna að þeir séu ekki lakari en liðið í 34. sætinu.