Samningur Ingólfur Árnason og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood.
Samningur Ingólfur Árnason og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Ég hef trú á því að þessi tækni, að kæla fiskinn svona mikið strax á millidekkinu án þess að ís komi þar nærri, sé stærsta bylting sem ég hef orðið vitni að í bolfiskvinnslu.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Ég hef trú á því að þessi tækni, að kæla fiskinn svona mikið strax á millidekkinu án þess að ís komi þar nærri, sé stærsta bylting sem ég hef orðið vitni að í bolfiskvinnslu. Með ofurkælingu strax eftir blóðgun breytast forsendur, sem skila sér áfram alla keðjuna þar til fiskurinn endar á diski neytandans,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans á Akranesi.

Fyrirtækið hefur ásamt systurfyrirtækinu 3X á Ísafirði, Matís, FISK Seafood og Iceprotein á Sauðárkróki og Kælismiðjunni Frost þróað aðferðir og búnað til að ofurkæla fisk um borð í veiðiskipum.Tæknin er í einkaleyfisferli og verður búnaðurinn settur um borð í Málmey SK 1 í desember. Unnið er að því í Póllandi að breyta skipinu úr frystitogara í ferskfisktogara, eins og Ingólfur vill orða það.

Hægari bakteríuvöxtur

Frá þessu var greint í Morgunblaðinu á fimmtudag og segist Ingólfur hafa fengið mikil viðbrögð við fréttinni. Margir hafi sýnt tækninni áhuga og verður sjávarútvegssýningin í Fífunni í Kópavogi um næstu helgi án efa vettvangur umræðna um þá möguleika sem felast í þessum breytingum.

Kælingin sjálf er tölvustýrð og fer fram með því að nýta samþættingu varmaskipta, kælimiðilsins glycol, salts og sjávar. Aflinn er undirkældur í mínus eina gráðu strax eftir blæðingarferli og í kjölfarið verður sá möguleiki fyrir hendi að geyma fiskinn við sama hitastig án íss, sem þar með verður óþarfur. Í rannsóknum kom í ljós við talningu á bakteríum að vöxtur þeirra reyndist helmingi hægari þegar þessari aðferð var beitt.

„Ég held að þarna sé stigið fyrsta skrefið í því að gjörbylta hefðbundinni bolfiskvinnslu,“ segir Ingólfur. „Þarna er verið að fara alveg nýjar leiðir í meðhöndlun á fiski um borð í ísfiskskipi. Þessi kæliaðferð, sem í sjálfu sér var þekkt, var rannsökuð sérstaklega í hálft ár og hvernig mætti koma henni að um borð í skipum sem eru kannski viku að veiðum. Þegar þeim rannsóknum lauk var samið við FISK Seafood og þar á bæ eru menn tilbúnir að prófa þetta.

Með þessu lengjum við líftíma vörunnar og markmiðið er að hámarka gæði afurða. Svo ekki sé minnst á allt það hagræði og vinnusparnað sem felst í því að losna við allan ís um borð. Skipin verða mun léttari, sem aftur sparar olíu. Ég hef trú á því að þetta verkefni marki þáttaskil í vinnslu á bolfiski og ég hef þó tekið þátt í nokkrum breytingum,“ segir Ingólfur. Nefna má að hann hannaði flæðilínuna, sem er ómissandi í fiskvinnslu, fyrirtæki hans hannaði fyrstu skurðarvélina og þróaði vigtunartækni sem m.a. er notuð í nýja frystihúsinu í Fuglafirði.

Tækifæri í norsku laxeldi

Myndgreining verður stór þáttur í nýja kerfinu og tegunda- og stærðarflokkar fiskinn. Myndavélatæknin verður notuð til að greina tegundir í sundur. Hvort sem aflinn er þorskur, ýsa eða ufsi greinir tæknin á milli og kemur fiskunum í rétt kör, þannig að allur aðgerður fiskur fær strax sömu meðhöndlun.

Í Noregi er áhugi á að kæla eldislax meira niður en mögulegt hefur verið með ískælingu. Iceprotein, Matís, 3X og Skaginn hafa myndað rannsóknateymi sem vinnur að þróun kerfis með Norðmönnum til að nýta í vinnslu á laxi. Að sögn Ingólfs lofar þessi vinna góðu, en laxeldi í Noregi er mjög umfangsmikið.

Gott skipulag og samvinna

• Háþróað uppsjávarfrystihús byggt í Fuglafirði á hálfu ári • Hátt tæknistig og frysting uppsjávartegunda í forystu Oft var handagangur í öskjunni þegar á annað hundrað Íslendingar og annar eins fjöldi á vegum færeyskra verktaka unnu við byggingu hátæknifrystihúss fyrir uppsjávarfisk í Fuglafirði í Færeyjum í sumar. Um tíma ægði saman iðnaðar- og tæknimönnum úr öllum áttum sem fengust við ólík verkefni. Skipulag og samvinna voru boðorðin svo verkefnið gengi snurðulaust.

Það tókst að afhenda frystihúsið með öllum búnaði viku af ágúst, sex mánuðum og einni viku eftir að gengið var frá fyrsta samningi. Hjólin fóru þegar að snúast og nánast frá fyrsta degi var afkastageta hússins 600 tonn á sólarhring eins og að hafði verið stefnt. Heildarsamningar við íslensk fyrirtæki námu ríflega þremur milljörðum.

Skaginn á Akranesi og Kælismiðjan Frost gerðu tvo fyrstu samningana um vinnslubúnað í húsið í fyrravetur, en þá voru engar framkvæmdir hafnar á lóð frystihússins á besta stað á hafnarbakkanum í Fuglafirði. Langstærsti hluti verksmiðjunnar var smíðaður á Akranesi, Akureyri og Ísafirði. Með Skaganum að verkefninu unnu systurfyrirtækin Þorgeir & Ellert á Akranesi og 3X á Ísafirði. Með Frosti vann Rafeyri á Akureyri við rafbúnað í frystihúsinu og varð reyndar einnig rafverktaki í húsinu. Fjölmörg fleiri íslensk fyrirtæki komu að verkefninu.

„Þetta var mikið og skemmtilegt átak,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans á Akranesi. Hann segir það hafa verið skrýtið að sjá vinnustaðina hálftóma síðustu vikurnar, en hjá flestum urðu sumarleyfi að bíða fram á haust vegna sumarvinnu í Færeyjum. Ingólfur segir verkefnastöðuna góða hjá fyrirtækjunum og næg vinna virðist vera framundan, Um 100 manns starfa hjá fyrirtækjunum á Akranesi og um 50 á Ísafirði.

Húsið var teiknað utan um búnaðinn

Áður höfðu Skaginn og samstarfsfyrirtækin framleitt búnað fyrir stór uppsjávarfrystihús hér á landi og á Þvereyri í Færeyjum. Frystihúsið í Fuglafirði er fimm þúsund fermetrar að stærð og er í eigu P/f Pelagos. Að því koma fiskmjölsverksmiðjan og laxafóðurfyrirtækið Havsbrún, útgerð uppsjávarskipanna Christians í Grótinum og Nordborgar og fyrirtækið Framherji, sem er að hluta í eigu Samherja í félagi við Færeyinga. Frystigeymslur voru fyrir í Fuglafirði, en þær voru á sínum tíma sprengdar inn í bergið við höfnina.

„Verklagið að þessu sinni var þannig að fyrst var vinnslukerfið teiknað og síðan var húsið teiknað utan um það. Þegar jarðvinna hófst við húsið vorum við komnir á fulla ferð með að útfæra, hanna endanlega og síðan að smíða búnaðinn í húsið, en sumt í þessu húsi höfðum við aldrei gert áður. Þá tók við framleiðsla og uppsetning á tækjum.

Staðreyndin er sú að vinnsla uppsjávartegunda er orðin langt á undan vinnslu á öðrum fiski. „Vissulega erum við Íslendingar fremstir í heiminum í vinnslu á bolfiski, en það breytir því ekki að tæknistigið í uppsjávarvinnslu er orðið miklu meira.

Við höfum verið heppin hér heima með það að menn hafa verið tilbúnir að stíga skref í framhaldsþróun í uppsjávarvinnslu. Færeyingar hafa sömuleiðis stigið stór skref í þessum efnum á síðustu árum,“ segir Ingólfur.