[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mr. Berrassi Minning úr barnaskóla: Steypireyður er kvenkynsorð og beygist í eintölu eins og brúður. Og svo eru það stílhugtökin uppskafning og ruglandi sem Þórbergur Þórðarson beitti í gagnrýni sinni: kvenkynsorð. Sama á við um hrynjandina .

Mr. Berrassi

Minning úr barnaskóla: Steypireyður er kvenkynsorð og beygist í eintölu eins og brúður. Og svo eru það stílhugtökin uppskafning og ruglandi sem Þórbergur Þórðarson beitti í gagnrýni sinni: kvenkynsorð. Sama á við um hrynjandina .

Og nú langar mig að taka ofan fyrir tveimur þýðendum hjá bókaforlaginu Bjarti. Þórdís Gísladóttir þýddi bókina Í leyfisleysi eftir Lenu Andersson; og Ingunn Snædal þýddi Beðið fyrir brottnumdum eftir Jennifer Clement. Í fyrrnefndu sögunni er afar athyglisverð umfjöllun um merkingu orðanna. Aðalpersónan er hámenntuð í heimspeki, auk þess ljóðskáld og greinahöfundur (hafði gefið út átta bækur), og hluti af starfi hennar var að meta „sennileika og heildarmerkingu orða“. Svo varð hún ástfangin af manni sem virtist hikandi í ást sinni til hennar. Hann sagði við hana í síma þar sem hún var í París en hann heima í Stokkhólmi: „Verðum í sambandi þegar þú kemur heim.“ Af því að konan var ástfangin lagði hún bókstaflega merkingu í orðin (taldi að hann vildi hitta hana strax og hún kæmi) en leit framhjá „sennileika og heildarmerkingu“. Svona er ástin: hún blindar jafnvel þá sprenglærðu.

Í sömu bók er myndhverfing á bls. 160: „Það hafði rignt nýlega. Malbikið var dökkur spegill sem þau sáu sig sjálf og hvert annað í.“ (Til öryggis: þau voru þrjú! Annars hefði staðið „hvort annað“: Þær voru tvær að berjast um karlinn.)

„Flestir höfðu aldrei heyrt á hana minnst,“ stendur á fyrstu síðunni. Einhverjir hefðu hugsanlega lagt til: „Fæstir höfðu heyrt á hana minnst,“ og jafnvel stutt mál sitt með orðum skáldsins: „Þegar mest hann þurfi við/þá voru flestir hvergi“. En það er munur á þessu tvennu. Í fyrra dæminu er meiri kaldhæðni. Hámenntaða sænska skáldkonan verður enn aumkunarverðari fyrir bragðið. (Innan sviga: Ég held að karlinn í sögunni hafi óttast þessa konu af því að hún var klárari en hann. En það má líka halda því fram að allur lærdómurinn hafi verið farinn að trufla eðlileg rómantísk samskipti.)

Nöturleg er sagan sem Ingunn Snædal þýddi af konunum í Mexíkó. Þar er þessi myndhverfing í máli Sofíu ömmu (bls. 63): „Týnd kona er bara enn eitt laufið sem hverfur ofan í ræsið í rigningu.“

Og svo þessi viðlíking í máli móðurinnar strax á eftir: „Öllum er sama um Ruth. Henni var bara stolið, eins og bíl.“

Við Þórdísi og Ingunni segi ég í hrifningu: Þýðið meira. Þið kunnið þetta.

En nú að öðru: Konan mín kallaði mig Mr. Berrassi (með áherslu á næstsíðasta atkvæði): Ég hafði verið allan daginn við berjatínslu með rassinn upp í loftið (nokkuð stirður daginn eftir, ég viðurkenni það).

Ein ráðlegging að lokum: Styttum mál okkar. Oft hef ég orðið vitni að stórbættum texta sem hafði talist fullbúinn til prentunar en þarfnaðist styttingar til að komast inn í þann stærðarramma sem ritstjórn hafði sett.

Baldur Hafstað bhafstad@hi.is

Höf.: Baldur Hafstað bhafstad@hi.is