[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kaplakrika Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.is Þjálfarar FH og ÍBV virtust vera nokkuð sammála um leik sinna liða í gærkvöld í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta þar sem liðin skildu jöfn, 29:29.

Í Kaplakrika

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

Þjálfarar FH og ÍBV virtust vera nokkuð sammála um leik sinna liða í gærkvöld í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta þar sem liðin skildu jöfn, 29:29. Í það minnsta taldi Gunnar Magnússon, þjálfari Eyjamanna, að ÍBV hefði tapað einu stigi miðað við hvernig leikurinn þróaðist, á meðan Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, viðurkenndi að FH hefði unnið fyrir því að fá sitt stig úr leiknum.

Eyjamenn voru nefnilega skrefinu á undan FH lengstan hluta leiksins. Hvorugt lið lék reyndar merkilegan varnarleik í fyrri hálfleik, enda stóðu leikar 17:15 í hálfleik fyrir ÍBV. Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, var tekinn af velli eftir að rúmlega stundarfjórðungur var liðinn af leiknum, en þá hafði Ágúst ekki varið eitt einasta skot.

Fljótlega braggaðist þó reyndar vörn heimamanna og Brynjar Darri Baldursson endaði á því að eiga fínan leik í markinu með 13 skot varin, þar af eitt víti.

Útilína FH þarf að vera stöðug

Maður skyldi ætla að útilína FH væri vel mönnuð með þá Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannsson og Ásbjörn Friðriksson auk þess að eiga Magnús Óla Magnússon. Þeir voru reyndar allir seinir í gang, en þegar Ísak, Ragnar og Magnús vöknuðu til lífsins í sókninni munaði vel um það. Þessir kappar þurfa allir að eiga stöðugan leik í vetur, ætli FH-ingar sér að berjast í efri hlutanum.

Eyjamenn voru hins vegar klaufar að ná ekki að vinna leikinn í gær. Eftir góðan kafla ÍBV fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks, þar sem Theodór Sigurbjörnsson skoraði þrjú mörk í röð úr hraðaupphlaupum, náði ÍBV fimm marka forskoti í stöðunni 22:17. Theodór endaði markahæstur Eyjamanna með 8 mörk en Ísak Rafnsson var markahæstur

En það getur víst verið vandi að halda fengnum hlut, og sú virtist raunin hjá ÍBV, því FH jafnaði metin í 26:26 þegar sex mínútur lifðu leiks. Áhorfendur fengu því spennandi lokamínútur.

ÍBV lék án Sindra Haraldssonar í gær sem er meiddur á kvið, hugsanlega er hann kviðslitinn og útlitið ekki gott. Sindri gæti verið frá í einhverja mánuði. Einar Sverrisson sem ÍBV fékk í sumar frá Selfossi til að fylla skarð Róbert Arons Hosterts, sem hélt í víking til Danmerkur átti fínan leik í gær. Einar skoraði fimm mörk og lofar góðu fyrir veturinn.

FH – ÍBV 29:29

Kaplakriki, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, föstudag 19. sept. 2014.

Gangur leiksins : 0:1, 2:1, 3:3, 4:7, 6:10, 12:14, 14:15, 15:17 , 16:17, 16:19, 17:22, 19:22, 20:24, 22:24, 26:26, 28:28, 29:29 .

Mörk FH : Ísak Rafnsson 7, Benedikt Reynir Kristinsson 5, Ragnar Jóhannsson 5, Magnús Óli Magnússon 5, Andri Hrafn Hallsson 3, Theodór Ingi Pálmason 2, Ásbjörn Friðriksson 2/1.

Varin skot : Brynjar Darri Baldursson 13/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk ÍBV : Theodór Sigurbjörnsson 8, Einar Sverrisson 5, Grétar Eyþórsson 5/1, Agnar Smári Jónsson 4, Magnús Stefánsson 4, Guðni Ingvarsson 2, Andri Heimir Friðriksson 1.

Varin skot : Kolbeinn Arnarson 7/1, Haukur Jónsson 3.

Utan vallar : 14 mínútur.

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson.

Áhorfendur : 462.