Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Alþýðusamband Íslands gagnrýnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og segir stjórnvöld hafa lagt kapp á að auka ráðstöfunartekjur best stæðu heimila landsins umfram þeirra tekjulægri.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Alþýðusamband Íslands gagnrýnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og segir stjórnvöld hafa lagt kapp á að auka ráðstöfunartekjur best stæðu heimila landsins umfram þeirra tekjulægri. Einu aðgerðirnar sem ríkisstjórnin hafi farið í til þess að vega upp á móti hækkunum á virðisaukaskatti og vörugjöldum sé hækkun á barnabótum, en ekkert hafi verið gert fyrir aðra hópa.

Í fréttatilkynningu sem ASÍ sendi frá sér í gær eru hinar ýmsu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum gagnrýndar. Til dæmis segir að lækkunin á miðþrepi tekjuskatts úr 25,8% í 25,3% muni aðeins gagnast tekjuhæstu heimilunum að fullu og að skattar hafi ekki lækkað neitt hjá fólki sem var með undir 250.000 krónum í mánaðarlaun.

Þá er leiðrétting ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum gagnrýnd. „Eins og ítrekað hefur verið bent á mun stærri hluti þeirrar aðgerðar renna til lækkunar á skuldum tekjuhárra heimila en hjá tekjulágum þar sem jafnan er sterkt jákvætt samband milli tekna og skulda,“ segir í tilkynningunni. Þá efast ASÍ um það að þær breytingar á efra þrepi virðisaukaskatts og vörugjöldum sem kynntar hafi verið muni skila sér nema að litlu leyti til neytenda.